Karl Óttar ráðinn forstjóri Grundarheimilanna

Gísli Páll Pálsson og Karl Óttar Einarsson.
Gísli Páll Pálsson og Karl Óttar Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.

Karl Óttar hefur starfað fyrir Grundarheimilin frá árinu 2011; fyrst sem bókari, síðan fjármálastjóri og síðustu árin hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra rekstrar og fjármála. Karl Óttar er menntaður viðskiptafræðingur auk þess að vera með meistargráðu í reikningshaldi og endurskoðun, að því er segir ít iklynningu. 

Grundarheimilin eru þrjú, Grund og Mörk í Reykjavík og Ás í Hveragerði. Að auki annast Grund rekstur 152 leiguíbúða Markarinnar 60+ í Mörkinni og rekur í Hveragerði eigið eldhús og þvottahús sem þjónustar öll Grundarheimilin. Alls eru íbúar þeirra um 370 talsins og fjöldi starfsmanna u.þ.b. 700.

Karl Óttar Einarsson.
Karl Óttar Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mikill heiður að hafa verið boðið þetta starf. Ekki einungis tek ég við kefli sem geymir hundrað ára farsæla sögu í öldrunarþjónustu heldur bíða okkar gríðarlega mikilvæg og krefjandi verkefni í framtíðinni vegna stöðugt hækkandi lífaldurs og um leið aukinnar þarfar fyrir góðan aðbúnað æ fleira fólks. Ég þekki vel til rekstursins eftir þátttöku í honum á undanförnum árum og það er auðvitað bónus að hafa stjórnarformann með mér við stjórnvölinn sem þekkir starfsemina eins og lófann á sér enda fæddur og uppalinn á þessum slóðum,“ segir Karl í tilkynningunni. 

Gísli Páll hefur starfað sem framkvæmdastjóri og forstjóri hjá Grundarheimilunum í rúmlega þrjátíu og tvö ár. Hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1990 og árið 2004 varð hann fyrstur til að útskrifast með meistaragráðu í heilsuhagfræði frá sama skóla. Hann tekur við hlutverki stjórnarformanns af Jóhanni J. Ólafssyni.

Gísli Páll Pálsson.
Gísli Páll Pálsson. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mikið fagnaðarefni að Karl Óttar setjist nú í forstjórastól Grundarheimilanna. Ég er ekki í vafa um að hann muni ásamt samstarfsfólki sínu leiða hinn daglega rekstur af miklum metnaði bæði hvað varðar þjónustu okkar við íbúana og umgjörðina sem starfsfólki er búin. Sjálfur get ég núna einbeitt mér meira að framtíðaráformum okkar og samskiptum við þá fjölmörgu aðila sem tengjast starfseminni. Ég vil á þessum tímamótum þakka Jóhanni J. Ólafssyni fyrir hans góða starf. Jóhann reyndist okkur öflugur og hugmyndaríkur frumkvöðull sem á mikinn þátt í stefnumótun okkar og stórum verkefnum á undanförnum árum,“ segir Gislí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert