Ný tilraunastöð Carbfix til kolefnisförgunar hefur verið tekin til notkunar við virkjun Orku náttúrunnar í Nesjavallavirkjun. Stöðin er mikilvægt skref í átt að sporlausri framleiðslu jarðvarmavirkjanna í nálægri framtíð.
Stöðin er tímabundin stöð en hægt er að færa hana og nýta á nýjum stað þegar varanleg stöð leysir hana af hólmi. Stöðin afkastar um þremur þúsundum tonna af koldíoxíði á ári.
Eitt af markmiðum verkefnisins er að leggja grunn að fullri hreinsun á CO2 og H ₂S frá Nesjavallavirkjun síðar meir, með varanlegri hreinsistöð sem áætlað er að verði komin í notkun árið 2030.
Reynslan af stöðinni verður síðan nýtt til að uppbyggingar á nýrri stöð í Þeistarreykjavirkjun og í Hellisheiðarvirkjun, þar sem fyrsta stöðin tók til starfa árið 2012. Hellisheiðarvirkjun hefur verið leiðandi í kolefnisförgun til þessa og stefnir að sporlausri framleiðslu árið 2025, með stöð Carbfix.
Dr. Sandra Snæbjörnsdóttir segir þetta tiltekna verkefni ekki hafa gengið snurðulaust fyrir sig. „Það hafa verið mörg ljón á veginum“ segir Sandra og hlær. Hún segir verkefnastjórann, Nökkva Andersen, hafa verið hent út í djúpu laugina, en ytri aðstæður hafi gert ýmis ferli töluvert erfiðari.
„Sérstaklega ytri aðstæður gerðu okkur erfitt fyrir. Fljótlega eftir að við settum þessa vinnu í gang brast COVID á og því fylgdu mjög margar áskoranir.“ Sandra segir stríðið sem brast út í Úkraínu í lok faraldurs hafa bætt gráu ofan á svart fyrir verkefnið.
„Það hefur verið mun erfiðara að fá ýmis aðföng, hlutir sem maður getur venjulega farið og sótt upp í hillu, höfum við þurft að bíða eftir í marga mánuði þannig það hefur líka verið mikil áskorun, fyrir utan það að það er alltaf áskorun að gera hlutina í fyrsta skipti. Það tekur stundum smá á þolinmæðina, en þess vegna erum við líka mjög glöð í dag,“.
Takist Carbfix að binda losun frá öllum jarðvarmavirkjunum Íslands, myndi magnið nema um 15 prósent af þeirri losun sem þarf að draga úr til að ná loftlagsmarkmiðum Íslands, að sögn Ólafs Teits Guðnasonar, kynningarstjóra Carbfix.
Carbfix tók á móti sögulega stórum styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins, vegna verkefnis í Straumsvík. Markmið verkefnisins er að fanga CO2 úr útblæstri frá iðnaði í Evrópu og flytja með skipum til Straumsvíkur þar sem því verður dælt í geymslutanka og seinna í gljúpan íslenskan jarðveg. En tæknilega séð gæti Ísland tekið við öllu koldíoxíði veraldar, þó ekki séu áform um slíkt, að sögn Ólafs Teits Guðnasonar, kynningarstjóra Carbfix.
Carbfix kolefnisförgunaraðferðin blandar gastegundum eins og CO2 og H ₂S í vatn og sem býr til eins konar sódavatn. Sódavatninu er dælt ofan í berlög í íslenskum jarðveg, en mest megnið af íslensku bergi er af basalt tegundinni. Koldíoxíð- og brennisteinssódavatnið síast inn í litlar holur bergsins og kristallast í steindir eins og glópagull og kalsít, og geymir þannig gastegundirnar varanlega í jarðveginum.
Carbfix hefur þess að auki hafið tilraunadælingar í Helguvík, þar sem notast er við sjávarvatn í stað ferskvatns til að leysa upp gösin.
Gangi verkefnið upp gæti það þýtt gríðarlega mikilvægt skref í kolefnisförgun á svæðum sem skortir ferskvatn. Sandra segir einnig áhugavert að skoða niðurdælingar á hafbotni, en hann er nær eingöngu basalt, og þannig mögulegt að gera öfugt við olíuborpalla.