Orðstír veittur við hátíðlega athöfn

Luciano Dutra og Jacek Godek með viðurkenningar sínar ásamt forsetahjónunum …
Luciano Dutra og Jacek Godek með viðurkenningar sínar ásamt forsetahjónunum á Bessastöðum í dag. Ljósmynd/Skrifstofa forseta Íslands

Forseti Íslands afhenti Orðstír, heiðursviðurkenningu til þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Orðstír hljóta að þessu sinni brasilíski þýðandinn, Luciano Dutra, sem þýðir á portúgölsku og pólski þýðandinn, Jacek Godek, sem þýðir á pólsku.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Hafa aukið hróður íslenskrar menningar

Orðstír er veittur annað hvert ár á Bókmenntahátíð í Reykjavík einum eða tveimur einstaklingum, sem þýtt hafa verk úr íslensku á annað tungumál með vönduðum hætti svo það hafi aukið hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Luciano Dutra kom fyrst til landsins árið 2002 að nema íslensku því hann vildi miðla íslenskum miðaldabókmenntum til samlanda sinna. Hann lauk námi í íslensku og þýðingafræðum og hefur þýtt fjölmargar bækur á portúgölsku, meðal annars Rökkurbýsnir og Skugga-Baldur eftir Sjón og Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson.

Jacek Godek bjó á Íslandi sem barn og gekk bæði í Melaskóla og Hagaskóla en lauk stúdentsprófi í Póllandi. Hann hefur þýtt úr íslensku á pólsku í meira en 50 ár. Meða verka sem Jacek hefur þýtt mætti nefna ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og ljóðabókina Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur en sú bók í pólskri þýðingu Jaceks hlaut verðlaunin European Poet of Freedom árið 2018.

Hann hefur verið öflugur talsmaður íslenskra bókmennta í Póllandi og hefur þýtt tugi skáldsagna á pólsku. Nýlega komu út bækurnar Kláði eftir Fríðu Ísberg og Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur í hans þýðingu og þessa dagana vinnur hann að nýrri þýðingu á 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason og Aprílsólarkulda eftir Elísabetu Jökulsdóttur, en Elísabet var bekkjarsystir Jaceks í barnaskóla á Íslandi.

Koma fram í Veröld á sunnudag

Þeir Dutra og Godek munu koma fram á dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík sunnudaginn 23. apríl kl. 15.00 í Veröld, húsi Vigdísar, þar sem þeir munu spjalla við rithöfundana Sölku Guðmundsdóttur, Gauta Kristmannsson og Elísabetu Jökulsdóttur.

Að Orðstír standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í dómnefnd sátu að þessu sinni þau Gauti Kristmannsson, Guðrún C. Emilsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Sif Gunnarsdóttir og Örnólfur Thorsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert