Svöl helgi framundan

Hitaspáin á landinu kl. 12 á morgun.
Hitaspáin á landinu kl. 12 á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Búast má við svalara veðri víða á landinu um helgina en það sem hefur verið í liðinni viku. Það verður hlýtt á Suðvesturlandi í dag en verður fer svo kólnandi í kvöld. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir það dæmigert að íslensk vorkoma sé skrykkjótt.

„Það sem stýrði veðrinu fyrr í vikunni er hæð yfir Skandinavíu sem beindi til okkar mjög hlýju lofti úr suðri,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Hæð var yfir landinu á sumardaginn fyrsta. Svo í dag hefur hún þokast yfir Grænland og þegar það er hæð yfir Grænlandi kemur loftið úr norðri.“

Hann segir að í nótt hafi snjóað örlítið á Austurlandi en það hafi verið lítil úrkoma. Þó sé smá föl víða á norðanverðu landinu og hefur aðeins náð að festa snjó á heiðavegum. Hann segir að kuldinn hafi enn ekki náð suður yfir heiðar en að það kólni í kvöld.

Víða sólríkt en hitinn ekki á uppleið

„Á morgun er skýjað veður og einhverjir smá dropar og hitinn bara svona 4-5 stig en fyrir utan á Suður- og Suðvesturlandi er ekki gert ráð fyrir neinni úrkomu á morgun.“

Hann segir að á sunnudaginn verði veðrið svipað og daginn áður. Um allt land verður hægviðri og víða sólríkt en smá skúrir með sunnanströndinni.

Hann segir að í næstu viku hlýni líklegast ekki og að það sé mun líklegra að það kólni örlítið. Þó megi búast við austlægri átt en þó ekki hvössum vindi.

„Það er dæmigert um íslenska vorkomu. Hún er oft skrykkjótt,“ segir Teitur að lokum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert