Um 30.000 fermetrar og kostar 27 milljarða

Í tillögum að nýju húsnæði Tækniskólans er hugað að sameiningu …
Í tillögum að nýju húsnæði Tækniskólans er hugað að sameiningu skólans við Flensborgarskóla.

Nýtt húsnæði Tækniskólans á að rísa í Hafnarfirði. Ætlað er að húsnæðið nemi um 24-30 þúsund fermetra og skoða þarf mögulega sameiningu Flensborgarskóla við Tækniskólann. Byggingin á að hýsa um 2.400 - 3.000 nemendur og mun kosta um 27 milljarða króna.

Á vef Stjórnarráðsins er greint frá tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarhúsnæði Tækniskólans en Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra skipaði í verkefnisstjórnina í fyrra. Hlutverk stjórnarinnar var meðal annars að leiða fram niðurstöðu um fjármögnun og eignarhald á húsnæði skólans.

Sameining Flensborgarskóla og Tækniskólans

Fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytisins kynnti hugmyndir að sameiningu Flensborgar og Tækniskólans. Þar er m.a. fullyrt að ljóst sé að Flensborgarskóli muni ekki fara varhluta af fækkun bóknámsnema og að staðsetning Tækniskólans nálægt skólanum væri líkleg til að auka þann vanda. Gert er ráð fyrir að nemendum í hefðbundnu bóknámi fækki um 2.500 á næstu tíu árum.

Þá yrði byggð um 30.000 fermetra skólabygging við Flensborgarhöfn fyrir allt bjóða upp á og núverandi húsnæði Flensborgar myndi finna önnur afnot.

Talið er að með þeim hætti yrði staðið að auknu framboði framhaldsskólanáms í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem líkleg fækkun bóknámsnema leiði þá ekki til aukins óhagræðis og samtvinnist frekar bóklegu námi Tækniskólans.

„Með slíkri sameiningu yrði stærsti starfs-, iðn-, tækni- og bóknámsskóli landsins með gríðarlega fjölbreyttu námsframboði sem mætir þörfum framtíðarinnar,“ segir í skýrslunni.

Nýtt félag tækniskólans á að fjármagna bygginguna

Áætlaður stofnkostnaður er allt að 27 milljarðar króna og stjórnin leggur fram tillögur um fjármögnun og kostnaðarskiptingu milli Hafnarfjarðarbæjar og eigenda tækniskólans.

Í skýrslunni er lagt til að nýtt félag sé stofnað sem snýr að fjármögnun byggingarinnar. Það verði rekið án hagnaðarsjónarmiða og uppfylli skilyrði sem félag til almannaheilla samkvæmt skattalögum. Þannig eigi framlög frá einkaaðilum njóta skattaívilnunar.

Eignahald byggingarinnar myndi þó renna til ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar þegar fjármögnunin er að fullu greidd.

Í skýrslunni segir einnig að þar sem félagið standi að framkvæmdinni falli byggingin ekki undir lög um framhaldsskóla hvað varðar fjármögnun byggingarinnar af hálfu ríkis og sveitarfélags.

Verkefnisstjórn skipa:

  • Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður
  • Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytisins
  • Gylfi Arnbjörnsson, fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytisins
  • Henný Gunnarsdóttir Hinz, fulltrúi forsætisráðuneytisins
  • Guðmundur Axel Hansen, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins
  • Rósa Guðbjartsdóttir, fulltrúi Hafnarfjarðarbæjar
  • Egill Jónsson, fulltrúi Tækniskólans
  • Jón B. Stefánsson, fulltrúi Tækniskólans

Skýrsluna alla má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert