Fjármála- og efnahagsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra hyggjast setja á laggirnar starfshóp um málefni Ríkisútvarpsins.
Starfshópurinn mun meðal annars hafa að markmiði að skoða mögulegar leiðir og tillögur til að breyta eðli og umfangi auglýsingadeildar stofnunarinnar til að minnka umsvif ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Í minnisblaði sem lagt var fyrir á ríkisstjórnarfundi í dag segir að vera ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hafi verið pólitískt bitbein til fjölda ára.
Þá segir að á það hafi verið bent, í skýrslu nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla frá árinu 2018, að góðar líkur séu á því að auglýsingafé leiti frekar úr landi. Því sé ekki sjálfgefið að hagur einkarekinna fjölmiðla vænkist með brotthvarfi stofnunarinnar af auglýsingamarkaði.
Auk þess að skoða starfsemi auglýsingadeildarinnar mun starfshópurinn fá það verkefni að skoða möguleika á að létta lífeyrisskuldbindingum stofnunarinnar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Starfshópinn munu skipa þrír fulltrúar. Fulltrúi frá forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneyti, sem leiða mun starfshópinn.
Hópnum verður ætlað að ljúka vinnu sinni ekki síðar en 1. júlí næstkomandi svo hægt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi gerist þess þörf.