Alveg hundrað prósent þess virði

Sóldís Eik, Katrín Eyja og Kristín Kolka njóta lífsins í …
Sóldís Eik, Katrín Eyja og Kristín Kolka njóta lífsins í Flórens og læra innanhúshönnum. mbl.is/Ás

Þær Katrín Eyja, Sóldís Eik og Kristín Kolka fluttu beint úr foreldrahúsum til Flórens nú í byrjun janúar og stunda þar árslangt nám í innanhússhönnun.

Sambúðin gengur vel og njóta þær þess að kynnast ítalskri menningu, borða góðan mat og kíkja út á lífið þegar þær þurfa ekki að læra, en heimanámið er mikið og strangt.

Þrjár ferðatöskur á mann

Sóldís, Kristín og Katrín hafa þekkst síðan þær voru í leikskóla og fylgdust að alla skólagönguna í Garðabæ. Sóldís og Kristín fóru svo í Versló og útskrifuðust vorið 2021 en Katrín er stúdent úr Fjölbraut í Garðabæ. Kristín og Sóldís byrjuðu í fjármálaverkfræði í HR en fundu sig ekki þar, en Katrín ákvað að taka sér árshlé frá námi og fór að vinna á leikskóla og safna sér fyrir hönnunarnámi.

„Ég var á fatahönnunarbraut í FG því ég vissi að ég vildi læra eitthvað tengt hönnun,“ segir Katrín.

Sóldís og Kristín fóru síðar að vinna á sama leikskóla og þær þrjár ákváðu síðan að skella sér saman í nám í innanhússhönnun í Flórens þegar búið væri að safna í smá sjóð. Skólinn sem varð fyrir valinu heitir FIDI, eða Florence Institute of Design International, og er í gamla miðbænum. Stelpurnar eru þar í eins árs diplómanámi. Það voru mikil viðbrigði fyrir þær að flytja úr foreldrahúsum í borg sem þær þekktu ekkert.

„Allar mömmur okkar komu með og voru með okkur í byrjun til að hjálpa að koma okkur fyrir,“ segir Katrín, en bæði Sóldís og Kristín höfðu aldrei áður komið til Flórens.

„Það var svolítið fyndið að ákveða bara að flytja hingað og hafa aldrei komið hingað,“ segir Kristín.

„Við komum út með þrjár ferðatöskur á mann plús handfarangur,“ segir Sóldís og hlær.

Ítalskir karlmenn hlusta ekki á nei

Lífið í Flórens er skemmtilegt og fólkið vinalegt að sögn stelpnanna, en þær segjast hafa verið örlítið smeykar í byrjun.

„Við vorum smá hræddar fyrst því við lásum að Flórens væri hættuleg borg, sem ég held að sé ekki rétt,“ segir Kristín.

„Við fengum reyndar smá sjokk þegar síma Kristínar var stolið á bar,“ segir Katrín og segir þær hafa rakið símann daginn eftir og farið að blokkinni þar sem síminn var.

„Þetta var frekar skuggalegt hverfi og við hringdum í lögguna sem kom,“ segir Kristín og bætir við að lögreglan hafi ekki getað hjálpað þeim, enda ekki hægt að banka upp á í fjölmörgum íbúðum blokkarinnar.

Flórens er falleg í kvöldsólinni.
Flórens er falleg í kvöldsólinni.

„Næturlífið hér er mjög skemmtilegt og allt öðruvísi en á Íslandi. Hér er meira um að velja,“ segir Sóldís og segja þær hvimleitt hversu ágengir ítalskir karlmenn geta verið. 

„Þeir hlusta ekki á nei sumir og vilja spjalla og kaupa drykki,“ segir Katrín og segir þær aldrei fara einar út á kvöldin.

„Við erum orðnar ákveðnari núna,“ segir Sóldís og hlær.

Í frítíma skoða þær sig um í borginni og njóta veðurblíðunnar í fallegum almenningsgörðum.

„Um daginn var sautján stiga hiti og við fórum í einn garðinn og lögðumst á teppi á bikiníum og sóluðum okkur í fjóra tíma, en fólki fannst við klikkaðar því það voru allir í dúnúlpum,“ segir Katrín og hlær.

Erum að læra af mörgu

Stelpurnar segja dvölina yndislega en þær hafa uppgötvað að það getur verið erfitt að standa á eigin fótum.

„Það er svo dýrt að kaupa sápur og klósettpappír og pipar og salt! Við höfum ekkert þurft að kaupa þetta heima,“ segir Katrín og hinar taka undir það.

„Við fórum einu sinni þrjár saman í búðina og fylltum þrjá risastóra Ikea-poka af matvörum og þurftum svo að labba í korter heim og síðan upp stigann,“ segir Katrín og skellihlær.

„Það var komin löng röð á eftir okkur í búðinni og allir horfðu á okkur því við keyptum svo mikið. Þetta gerist aldrei aftur,“ segir Kristín og hlær.

„Við erum að læra af mörgu hér,“ segir Sóldís.

Vegna anna í skólanum hafa þær stöllur ekki náð að ferðast mikið um landið en segja það í lagi því þær njóti þess að læra. Skólagjöldin eru há og því eins gott að fá mikið út úr náminu.

„Það er alveg hundrað prósent þess virði hvað það er mikið að gera því ég er svo glöð hvað ég er búin að læra mikið,“ segir Sóldís og hinar taka undir það.

Ítarlegt viðtal er við Sóldísi, Katrínu og Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert