Árásin vakið ótta og reiði

Bænastund var haldin í dag í Landakotskirkju til að styðja …
Bænastund var haldin í dag í Landakotskirkju til að styðja aðstandendur mannsins sem lést í árásinni. mbl.is/Óttar

Martyna Ylfa Suzko, þjóðfræðingur og stofnandi túlkaþjónustunnar Landstúlkunar, flutti til Íslands frá Póllandi árið 2005, þá á grunnskólaaldri. Hún segir mikinn samfélagsvanda vera viðvarandi á Íslandi þar sem litið sé á innflytjendur sem „annað“.

Hún segist oft vera spurð hvaðan hún sé. Hún tali góða íslensku en þó með hreim.

Íslendingar meini ummæli sem þessi ekki illa í flestum tilfellum, en þetta ýti undir þá upplifun að innflytjendur upplifi sig sem utan samfélagsins.

„Mér finnst Pólverjar líka oft hugsa: „Hvað sem ég geri, þá verð ég alltaf öðruvísi, hvað sem ég geri verð ég aldrei hundrað prósent partur af samfélaginu.“ Þess vegna eru Pólverjar meira að fara í sinn hóp og halda sig þar, þar sem þau eru jafningjar og ekki litið á þau eins og þau séu verri,“ segir Martyna í samtali við mbl.is.

Mikilvægt að allir fái að vera hluti af samfélaginu

Íslendingar leggi sig þó greinilega fram og það sé vissulega nýtt fyrir Íslendinga að eins margt fólk sé af erlendum uppruna á landinu og raun ber vitni.

Martyna leggur áherslu á að fjölbreyttara samfélagi sé tekið opnum örmum. Fólk komi víða að en geti samt verið Íslendingar. Það séu ekki allir eins en þó hluti af samfélaginu.

„Pólverjar eru ekki einhver sníkjudýr sem koma hingað til að mjólka kerfið heldur eru Pólverjar mjög stór og mikilvægur hluti af samfélaginu,“ segir Martyna. Hún geti sjálf til dæmis ekki ímyndað sér að búa annars staðar en á Íslandi.

„Ég er Íslendingur,“ segir hún.

Miklu máli skipti að passa sig hvernig sé rætt um innflytjendur, þá sérstaklega fyrir framan börn og ekki sé ýtt undir að þeir séu öðruvísi.

Fordómar geti leitt til ofbeldis og árekstra

Þegar vikið er að árásinni sem leiddi til dauða 27 ára pólsks manns fyrr í vikunni segir hún hana hafa vakið reiði og ótta í pólska samfélaginu hér á landi. Þó að mikið sé enn óvíst hvað varðar aðdraganda árásarinnar vakni spurningar um það hvort að ráðist hafi verið á manninn vegna þess að hann var pólskur.

Eða hvort að viðmótið hefði verið annað ef maðurinn hefði verið Íslendingur.

„Ef þú lítur niður til annars og það eru meiri fordómar þá er kannski líklegra að það myndist meira ofbeldi, meiri árekstrar á milli fólks,“ segir Martyna.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við mbl.is síðdegis að ekki væri talið að uppruni fórnarlambsins tengdist árásinni.

„En aft­ur segi ég það að svona rann­sókn, hún snýst um það að reyna að átta sig á öll­um atriðum, og jafn­vel þó það bendi ekk­ert til þess núna þá er því ekki stungið ofan í skúffu,“ bætti hann við.

Í viðtali við Heimildina greindi móðir fórnarlambsins frá því að erfitt væri fyrir hana að fá upplýsingar vegna þess að í hvert sinn væri nýr túlkur kallaður til.

Martyna segir mikla starfsmannaveltu vera í túlkageiranum, túlkar séu almennt verktakar og oft gerist það að manneskja sem tali smá pólsku og smá íslensku sé fengin til að túlka, það sé einfaldlega ekki nóg.

„Það er mjög oft sem vantar túlk í mjög slæmum og erfiðum aðstæðum og það þarf að vera með reynslu og vitund um það hvernig eigi að bregðast við og stjórna aðstæðum. Það er ekki einfalt að vera túlkur og þess vegna stofnaði ég þetta fyrirtæki,“ segir Martyna.

Ekki mikið um sérhæfða túlka hér á landi

Mikilvægt sé að fólk geti treyst túlknum sem það fái aðgang að en það geti ýft frekar upp áföllin sem fólk lendir í að fá alltaf nýjan einstakling á svæðið.

„Læknisfræðilegur og lagalegur orðaforði er ekki það sama og daglegt tal. Ég sem túlkur er alltaf að vinna upp orðaforða, það er mjög mikil vinna,“ segir Martyna og nefnir að erlendis séu túlkar oft sérhæfðir innan ákveðinna geira en hérlendis sé það ekki þannig.

Að lokum ítrekar hún að við þurfum öll að standa saman, vinna gegn fordómum og sýna hvert öðru umburðarlyndi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert