Dæmir ekki foreldra árásarmanna

Í Landakotskirkju í dag.
Í Landakotskirkju í dag. mbl.is/Óttar

Fjöldi fólks var saman kominn á bænastund í Landakotskirkju fyrr í dag. Bænastundin var boðuð til þess að sýna aðstandendum mannsins, sem stunginn var til bana fyrir framan Fjarðarkaup fyrr í þessari viku, stuðning.

Maðurinn var 27 ára að aldri og var pólskur ríkisborgari.

Í samtali við Heimildina kveðst móðir fórnarlambsins vera að bugast af sorg. Hún búist við því að stærsti hluti áfallsins muni eflaust gera vart við sig síðar, þar sem erfitt sé fyrir hana að fá upplýsingar um málið í gegnum túlka.

Hún greinir einnig frá því að sonur sinn hafi látið eftir sig dóttur.

Með djúpt sár á hjartanu

Hún segist vera með djúpt sár á hjartanu. Þá dæmi hún ekki foreldra árásarmannanna, sem allir eru undir tvítugu.

„Þau sem gerðu þetta eru bara krakkar sem eru að byrja lífið. Ég dæmi ekki foreldra þeirra því ég er sjálf móðir,“ segir konan í samtali við Heimildina.

Árásin, sem vakið hefur ótta og reiði hjá pólska samfélaginu á Íslandi, átti sér stað fyrir utan verslunina Fjarðarkaup fyrr í þessari viku. Fjórir einstaklingar eru í varðhaldi vegna málsins.

Litlar upplýsingar hafa fengist um nákvæman aldur eða kyn þeirra. Allir eru þeir Íslendingar undir tvítugu.

Lögðu hald á hníf

Í samtali við mbl.is staðfesti Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að lögreglan hefði lagt hald á hníf sem talið er að hafi verið notaður við árásina.

Þá hafi fleiri húsleitir einnig verið framkvæmdar í tengslum við málið.

Að svo stöddu bendi ekkert til þess að ráðist hafi verið á manninn vegna þess að hann var pólskur en það geti breyst við frekari rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert