Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn vegna árásarinnar við Fjarðarkaup miða vel áfram.
Hann kveðst þó ekki geta staðfest frekar hvað varðar tengsl fórnarlambsins við meinta árásarmenn eða aldur árásarmanna.
Maðurinn sem lést var pólskur ríkisborgari, 27 ára að aldri. Fjórir Íslendingar undir tvítugu eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Þegar því er velt upp að borið hafi á hræðslu innan pólska samfélagsins á Íslandi eftir árásina segir Grímur ekkert benda til þess að svo stöddu að veist hafi verið að manninum af því að hann hafi verið pólskur.
„En aftur segi ég það að svona rannsókn, hún snýst um það að reyna að átta sig á öllum atriðum, og jafnvel þó það bendi ekkert til þess núna þá er því ekki stungið ofan í skúffu. Það er alltaf allt undir í svona rannsókn þangað til að við teljum okkur vera komin með atburðarásina,“ segir Grímur.
Hvað varðar vopnaburð meintra árásarmanna segir Grímur lögreglu hafa lagt hald á hníf sem talið sé að hafi verið notaður í árásinni. Þá hafi fleiri húsleitir verið framkvæmdar.
Spurður hvort þeir sem handteknir voru hafi verið vopnaðir frekar segist hann ekki geta tjáð sig um það.