Heil deild lögð undir einn hinna handteknu

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði.

Einn þeirra fjögurra sem hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, vegna andláts manns á bílastæði Fjarðakaupa, er í varðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði.

Hinir þrír eru í varðhaldi á vegum barnaverndaryfirvalda þar sem um er að ræða börn yngri en átján ára.

Þetta staðfestir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is.

„Meginreglan er sú að börn undir átján ára eru ekki vistuð í fangelsi, heldur hjá barnaverndaryfirvöldum. Við erum með einn ungan aðila og útfærðum þetta þannig að sá aðili er með heila deild út af fyrir sig til þess að draga úr neikvæðum afleiðingum innilokunarinnar,“ segir Páll.

„Hann er einn vegna rannsóknarhagsmuna, en hann er ekki lokaður inni í klefa eins og um hefðbundna einangrunarvist væri að ræða.“

Harkalegt úrræði

Bendir Páll á að einangrunarvist sé harkalegt úrræði og geti haft slæm áhrif. Einstaklingar séu einungis vistaðir í einangrun á meðan rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

„Það eru einstaka tilvik þar sem börn eru úrskurðuð í einangrun þar sem við grípum inn í, sem er þá mjög tímabundið og við reynum þá að útfæra það, eins og í þessu tilviki, þannig að það valdi sem minnstum skaða fyrir viðkomandi.“

Hann segir að það sé alls ekki algengt að meintir gerendur í stórum sakamálum þurfi að vera lengi í einangrun. Það vari yfirleitt í skamman tíma, í dögum talið.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Hari

„Eins lítið íþyngjandi og mögulegt er“

Hann ítrekar að það sé mjög sjaldgæft að einangrunarvist sé beitt gegn einstaklingum á svo ungum aldri.

„Þegar það hefur komið upp hafa þau almennt verið vistuð hjá barnaverndaryfirvöldum, svo sem á Stuðlum, en við hlaupum undir bagga þegar önnur úrræði eru ekki til staðar. Þá bara mjög tímabundið og útfærum það þannig að það sé eins lítið íþyngjandi og mögulegt er, en þó þannig að rannsóknarhagsmunir séu ekki í hættu.“

Einangrunarvistaðir einstaklingar hafa að sögn Páls aðgang að bókum og DVD-myndum, auk þess sem sérfræðingar sinna þeim vel. Nefnir Páll sálfræðinga og presta í því sambandi, svo og fangaverði sem fylgist vel með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert