Lögreglu hefur ekki tekist að hafa uppi á aðilanum sem reyndi að stela hraðbanka á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði í nótt.
Tilkynning um atvikið barst um klukkan hálf þrjú og mátti sjá á vettvangi að búið var að binda reipi við afturenda bifreiðar og í hraðbankann.
Ljósaskilti hafði farið af hraðbankanum en hann hafði þó ekki færst úr stað. Ekki varð tjón á hraðbankanum að öðru leyti.
Bifreiðin var mannlaus þegar lögreglu bar að garði og er því ekki vitað hver hafði verið að verki. Málið er nú í rannsókn.
„Við eigum eftir að athuga með eiganda bílsins og sjá hvernig það þróast, hvort þessum bíl hafi verið stolið eða ekki,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.