Reykjanesbraut lokað um stund vegna alelda bíls

Loka þurfti Reykjanesbraut um stund. Mynd úr safni.
Loka þurfti Reykjanesbraut um stund. Mynd úr safni. Ljósmynd/Eva Björk

Tilkynnt var um alelda sendiferðabíl á Reykjanesbraut klukkan 15.48. Fullmannaður slökkviliðsbíll var sendur á staðinn og tók um tuttugu mínútur að slökkva eldinn. Engin slys urðu á fólki.

Þetta staðfestir Ingvi Þór Hákonarson, aðstoðarvarðstjóri hjá brunavörnum Suðurnesja í samtali við mbl.is.

Fullur af matvöru

Hann segir farþega bílsins hafa náð að forða sér en engir aðrir bílar hafi verið í hættu. Bíllinn hafi verið alelda þegar slökkvilið bar að garði.

„Þau greinilega verða vör við eldinn, leggja út í kant og fara út úr bílnum,“ segir Ingvi en bíllinn var fullur af matvöru.

Loka þurfti Reykjanesbrautinni á meðan að gengið var frá vettvangi og var verið að opna brautina á ný þegar rætt var við slökkviliðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert