Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið upplýsingar um að myndband af árásinni sem framin var á fimmtudaginn á bílastæði Fjarðarkaupa sé í dreifingu.
Þetta segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Pólskur maður á þrítugsaldri lést í kjölfar árásarinnar en hann var með fleiri en einn stunguáverka. Fjórir einstaklingar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins.
Lögreglan hefur ekki séð myndbandið sem hún hefur fengið upplýsingar um að sé í dreifingu.
„Við höfum upplýsingar um það að það kunni að vera að það sé í dreifingu einhverskonar myndefni sem tengist þessari árás. Það er eitthvað sem við erum með til rannsóknar,“ segir Grímur.
Þetta er þá myndband sem meintir árásarmenn hafa tekið upp?
„Það er hluti af því sem við erum að rannsaka, hvernig þetta hefur verið tekið upp.“
Hafið þið séð þetta myndband?
„Við höfum ekki fengið utan úr bæ nein myndbönd enn þá nei. En við erum með til rannsóknar hvort því hafi verið dreift.“
Í gær fór lögreglan í húsleitir vegna rannsóknar sinnar á andláti mannsins. Grímur vildi ekki gefa upp hvort lögregla hafi lagt hald á einhverja muni.
Lögregla hefur hins vegar lagt hendur á það vopn sem hún telur hafa orðið manninum að bana. Vopnið fannst nálægt vettvangi í gær. „Við erum með í okkar höndum það vopn sem við teljum að hafi verið notað, sem er hnífur,“ segir Grímur.
Þá hefur lögreglan skoðað myndefni úr eftirlitsmyndavélum sem eru í grennd við Fjarðakaup. Segir Grímur myndefnið hafa skilað árangri: „Við höfum haft árangur sem erfiði að einhverju leyti.“
Að sögn Gríms er ekkert sem bendir til þess að þeir einstaklingar sem eru í gæsluvarðhaldi hafi þekkt hinn látna.
„Við treystum okkur ekki til að fullyrða um það á þessu stigi en það bendir ekki til þess að það hafi verið tengsl á milli þeirra.“
Spurður hvort lögregla hafi hugmynd um atburðarásina sem leiddi til árásarinnar segir Grímur:
„Við þessa rannsókn höfum við aflað gagna sem benda til ákveðins aðdraganda að árásinni en það er ekki tímabært að fara út í það. “
Í gærkvöldi voru fjórir einstaklingar undir tvítugu úrskurðaðir í gæsluvarhald vegna málsins. DV greinir frá að um sé að ræða þrjá pilta og eina stúlku. Grímur vildi ekki staðfesta hvort það væri rétt.
„Þetta er auðvitað viðkvæmt þegar fólk sem er svona ungt er grunað um svona alvarlega háttsemi. Þannig að við viljum fara varlega í alla umræðu um það.“