„Dauðsföllin koma í hrönnum“

„Við verðum að setjast niður og segja, þetta er faraldur …
„Við verðum að setjast niður og segja, þetta er faraldur og samfélagslegt mein,“ segir Bubbi Morthens. mbl.is/Hallur Már

„Þetta er voðalega einfalt, það er ópíóðafaraldur að grassera meðal ungs fólks á Íslandi og dauðsföllin koma í hrönnum,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens í samtali við mbl.is.

„Eftir að ég var að syngja yfir ungum manni ekki í gær heldur hinn fékk ég símtal morguninn eftir og var beðinn að syngja yfir öðrum ungum manni, 23 ára gömlum,“ segir hann.

„Margfalt meiri ánetjun“

Bubbi segist finna hversu svakalega hafi fjölgað í hópi ungs fólks sem fellur frá eftir að hafa ánetjast ópíóðum. Hann segist hafa heyrt einhvers staðar að ánetjun fólk í ópíóða væri margfalt meiri en til dæmis í heróín.

„Sumir þessara einstaklinga sem ég hef sungið yfir, þeir bara sviptu sig lífi vegna þess að þeir sáu ekki fram á að bara komast í gegn.“

Bubbi birti mynd á samfélagsmiðlum í dag þar sem hann segist á einu ári hafa sungið yfir 11 einstaklingum sem fallið hafa frá vegna fíknisjúkdóms og þar af 6 einstaklingum sem höfðu ánetjast ópíóðum.

Myndin hefur vakið töluverða athygli.

Hvers vegna er engin umræða?

Bubbi spyr sig hvers vegna engin umræða sé meðal stjórnmálamanna, þingmanna og þeirra sem hafa þó alla vega getu og vald til að stíga inn.

„Nú má enginn misskilja mig. Ef þetta væri snjóflóð þá væru allir búnir að bregðast við og það væri landssöfnun ef við værum að missa svona mikið af fólki út af náttúruhamförum.

Þetta eru ekki ólögleg efni skilurðu mig. Þetta er ekki heróín eða eitthvað sem verið er að flytja inn. Þetta er eitthvað sem við köllum góðu nafni læknadóp. Við hljótum að geta sagt sko, heyrðu nú þurfum við að bregðast við,“ segir Bubbi.

„Þurfum að breyta hugsunarhætti okkar“

„Hver einstaklingur sem fellur frá er auðvitað gríðarlegt tap fyrir samfélagið fyrir utan harminn og áföllin og hvernig þetta hefur áhrif á fjölskyldur og ættingja sem heldur svo áfram að „triggera“ út lífið.

Við verðum að stíga fram. Nú skulum við taka á þessu. Ekki með stýrihóp eða slíkum úrræðum. Við verðum að „akta“ á þetta,“ segir hann.

„Við verðum að setjast niður og segja, þetta er faraldur og samfélagslegt mein. Við þurfum öll að breyta hugsunarhætti okkar og taka á þessu af skynsemi, kærleika og væntumþykju en ekki með refsigleði að vopni eða eitthvað því um líkt. Fangelsin okkar eru full af fíklum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert