Sendiherra Póllands á Íslandi segist engar upplýsingar hafa fengið frá lögreglunni vegna pólska mannsins sem stunginn var til bana í vikunni. Hann hafi þurft að reiða sig á upplýsingar frá fjölmiðlum.
„Vínarsáttmálinn segir að við eigum að fá upplýsingar frá lögreglunni, hingað til höfum við engar fengið. Allt sem við vitum kemur frá fjölmiðlum. Það er ekki rétt að gera þetta svona frá diplómatísku sjónarhorni. Nú bíðum við eftir upplýsingum frá lögreglunni,“ segir Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, í samtali við mbl.is.
Sendiherra hitti í gær aðstandendur mannsins sem lést og hefur boðið þeim að koma í sendiráðið og ræða málin. Hann segir aðstandendur enn hafa verið í áfalli.
Hvað varðar rannsókn málsins segist hann vilja fá að sjá myndbandið sem lögreglan hafi undir höndum af verknaðinum. Hann vilji komast að því hvað hafi verið sagt við manninn en hann voni að ekki hafi verið ráðist á hann á þeim grundvelli að hann hafi verið Pólverji.
Pokruszyński hefur unnið á Íslandi í fimm og hálft ár og segist leggja áherslu á að búa til góð tengsl á milli Pólverja og Íslendinga og mál sem þessi hjálpi ekki við þá vinnu.
Hann segist þurfa að nefna brandara sem að þingmaður Flokks fólksins, Eyjólfur Ármannsson, lét falla fyrir þingkosningarnar árið 2021. Brandarinn var harðlega gagnrýndur og var Eyjólfur meðal annars sakaður um hatursorðræðu í garð Pólverja.
Í brandaranum, sem birtur var undir þeim formerkjum að vera fimmaurabrandari, sagði Eyjólfur sögu af Íslendingi sem henti Pólverja niður úr Eiffel-turninum því of margir Pólverjar væru á Íslandi.
Sendiherrann segist ekki geta ímyndað sér að brandarar sem þessir gagnvart öðrum þjóðfélegshópum yrðu liðnir. Mikilvægt sé nú að farið sé varlega í ummælum vegna þess að auðvelt sé að búa til andúð á milli þjóðfélagshópa sem búi saman á lítilli eyju.
Spurður hvort honum þyki forvarnir nauðsynlegar í þessum efnum segir hann nauðsynlegt fyrir yfirvöld að grípa inn í, ef komist verði að því að árásin hafi verið knúin af fordómum.
Hann segist hafa sent lögreglunni skilaboð tvisvar og sóst eftir upplýsingum. Hann vonist til þess að lögreglan sé að safna saman upplýsingum og muni senda honum svar á morgun.
„Þetta er harmleikur fyrir fjölskylduna en einnig fyrir tengsl hér á landi á milli Íslendinga og Pólverja,“ segir Pokruszyński og bætir við að hann biðji fyrir fórnarlambinu og fjölskyldu hans.