Stöðugildin hjá hinu opinbera eru alls 19.164 talsins.
Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, um fjölda þeirra sem vinna hjá hinu opinbera.
Heilbrigðisráðuneytið er langstærst með samtals 8.217 stöðugildi. Af þeim er Landspítalinn með 4.794 stöðugildi.
Þar á eftir kemur mennta- og menningarmálaráðuneytið með 4.686 stöðugildi en 1.675 þeirra tilheyra Háskóla Íslands. Þá vinna 2.011 manns hjá eða undir dómsmálaráðuneytinu, þar af 397 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Með hugtakinu stöðugildi er átt við ígildi fullra starfa í dagvinnu í viðkomandi mánuði, þ.e. tvö 50% störf teljast sem eitt stöðugildi, og með því teljast ekki starfsmenn í launalausu leyfi eða fæðingarorlofi sem ekki eru á launum.
Diljá Mist vildi meðal annars vita fjölda stöðugilda þar sem Fjársýsla ríkisins væri launagreiðandi, fjölda þeirra sem vinna hjá opinberum hlutafélögum og bönkum í ríkiseigu sem og fjölda þeirra sem vinna hjá ráðuneytunum og opinberum stofnunum.
Miðað var við tímabilið 2011-2021. Spurningarnar og svörin í heild sinni má lesa inni á vef Alþingis.