Undir húsunum á Skólavörðustíg 12 er mjög merkilegur kjallari sem mögulega hefur verið hugsaður sem loftvarnabyrgi þegar húsin voru reist á árunum 1931-45 enda ófriðartímar. Lísa Kristjánsdóttir, sem nú rekur kaffihús á staðnum, ólst upp í hverfinu og minnist þess að brýnt var fyrir henni sem barni að leita þangað ef kjarnorkustyrjöld bæri að höndum.
Loftvarnabyrgi var einmitt það sem Lísa og stalla hennar Arndís Kristjánsdóttir hugsuðu þegar þær komu þarna niður meðan þær voru að undirbúa opnun kaffihúss síns, Krambers, á jarðhæðinni en gengið er inn í það frá Bergstaðastrætinu.
Þar var lengi Blómaverkstæði Binna, ef það hjálpar ykkur að staðsetja rýmið. Hinum megin við Skólavörðustíginn er Hegningarhúsið. Þar fyrir neðan var svokölluð Kjaftaklöpp, þar sem menn sögðu hverjir öðrum fréttir fyrr á tímum – og slúðruðu eftir atvikum.
„Ég var hérna í smekkbuxum og skítagalla allt síðasta sumar áður en við opnuðum og spjallaði stundum við vegfarendur sem lék forvitni á að vita hvað við værum að gera. Einn þeirra var Páll Baldvin Baldvinsson, bókmenntafræðingur og rithöfundur, og þegar kjallarinn barst í tal sagði hann okkur að hann hefði mjög líklega verið hugsaður sem loftvarnabyrgi fyrir hverfið,“ segir Lísa.
Það rímaði við hennar minningar en þegar Lísa bjó á Óðinsgötunni sem barn var henni ráðlagt að taka strauið þráðbeint yfir á Skólavörðustíg 12 ef út brytist kjarnorkustyrjöld. „Ég er eitísbarn, sjáðu til,“ upplýsir hún en þá rambaði heimurinn sem kunnugt er á barmi slíkrar styrjaldar, að margir töldu. Enn berjast menn í Evrópu og hver veit nema að því komi að kjallarinn þurfi að þjóna sínum upprunalega tilgangi.
„Í dag er þetta alla vega ekki versti staðurinn til að vera á undir slíkum kringumstæðum, fullur kjallari af veigum frá kaffihúsinu og hinu megin má finna teppi frá Rammagerðinni,“ segir Lísa sposk á svip.
Páll Baldvin Baldvinsson, sem skrifaði bókina Stríðsárin 1938-45, segir kjallarana undir Skólavörðustíg 12 grafna við byggingu hornhússins samkvæmt teikningum uppúr 1930 þar sem klöppin leyfði og voru geymslur fyrir verslanir á jarðhæðinni.
„Þar rak KRON búð á horninu, svo djúpur steinsteyptur kjallari kom að góðum notum þegar þörf var á loftvarnarbyrgi fyrir hverfið 1940, eldri byggð í hverfinu samanstóð af timburhúsum en þau stóðu flest á berri klöppinni og var í þeim lítið skjól. Flest húsin á þessum slóðum voru einlyft eða tvílyft og viku á millistríðsárunum fyrir háum steinhúsum, allt í fjórar hæðir samkvæmt skipulaginu frá 1927. Teikningar frá 1931 sýna að kjallarinn undir hornhúsinu var hugsaður og skráður sem geymslur.“
Í afmælisviðtali við Friðrik Þorsteinsson, sem lét reisa húsin, sjötugan í Morgunblaðinu 1966 kom fram að Friðrik, sem fæddur var í Svarfaðardal, hafði ekki lengi verið í Reykjavík, er hann fékk mætur á Skólavörðustígnum. Hann keypti gamla Geysishúsið sem stóð við götuna.
„Það var þá talið tæplega íbúðarhæft. Ég hressti upp á það og bjó í gamla-Geysishúsinu 1929-1940, að ég flutti vestur á Túngötu,“ sagði Friðrik. Fyrsta áfanga af stórhýsi sínu reisti Friðrik 1931. „Þegar ég hóf byggingu hússins héldu margir að nú væri ég orðinn vitlaus. Það var vegna þess að kjallarinn undir húsinu er 2 metrar niður og sprengja varð hvert fet gegnum klöppina, sem er undir húsinu. Á Geysislóðinni byggði ég svo verkstæðið og allt því tilheyrandi.“
Nánar var hann ekki spurður út í kjallarann í viðtalinu. Því miður.
Ítarlega er fjallað um Skólavörðustíg 12 og kjallarann góða í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.