Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um ungmenni sem voru að kveikja í inni á almenningssalerni í Breiðholti. Ungmennin voru farin þegar lögreglu bar að.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu sem nær yfir útköll í gærkvöldi og í nótt.
Í miðbænum var óskað eftir aðstoð lögreglu að veitingahúsi, en þar var einstaklingur sem neitaði að borga fyrir reikninginn sinn og óskaði sjálfur eftir aðkomu lögreglu. Aðilinn var fluttur á lögreglustöð þar sem honum var tilkynnt að hann yrði kærður fyrir fjársvik og yrði laus að því loknu.
Þá barst lögreglu tilkynning um aðila sem var að sveifla hníf í miðbænum. Var hann handtekinn þar sem hann var grunaður um vopnalagabrot. Hann var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Í miðbænum var einnig tilkynnt um slagsmál en það reyndist vera falsboð.
Lögregla fékk símtal um að ekið hefði verið á húsnæði í Kópavogi. Í dagbók lögreglu segir að við höggið hafi bifreiðin hringt í 112. Minniháttar eignartjón hlaust af atvikinu.
Í Kópavogi var einnig tilkynnt um veiðiþjófnað. Er lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir einn aðila og var honum kynnt að það mætti ekki veiða í ánni. Hann var þó ekki með neinn afla og er því laust allra mála.
Þá var tilkynnt um bifreið uppi á grjóti til lögreglu. Haft var samband við skráðan eiganda sem kvaðst ætla að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi bifreiðina. Í dagbók lögreglu kemur ekki fram hvar bifreiðin var.
Í Mosfellsbæ var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ökumanns sem hafði fest bifreið sína. Bifreiðin var losuð með dráttarbifreið og ekið af vettvangi. Ekkert eignartjón varð né slys á fólki.