Yfir Grænlandi er víðáttumikil hæð sem teygir anga sína til Íslands og verður því víða hægur vindur með björtu og fallegu veðri í dag.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Fram kemur að rétt fyrir utan Reykjanes liggi hins vegar smávaxin lægð sem muni færa sig eftir suðvesturhluta landsins og verði því skýjað veður með vætu. Mun lægðin mjaka sér til austurs í dag og ætti því að stytta upp suðvestantil, en í kvöld verður væta með köflum syðst á landinu.
Á morgun mun aðeins bæta í vindinn með norðaustan strekkingi á norðvesturhluta landsins, en hægari annars staðar. Áfram verður viðloðandi væta allra syðst og úrkomulítið norðaustantil, annars verður þurrt.