Andlát: Davíð Gíslason bóndi

Davíð Gíslason.
Davíð Gíslason. Ljósmynd/Aðsend

Davíð Gíslason, fyrrverandi bóndi og skáld frá Svaðastöðum í Geysisbyggð í Manitoba í Kanada, sem bjó á öldrunarheimilinu Betel á Gimli undanfarin ár, andaðist aðfaranótt föstudagsins 21. apríl, 81 árs að aldri.

Foreldrar Davíðs voru Jósep Gíslason og Guðrún Eiríksdóttir, sem fæddist á Íslandi. Þau voru bændur á Svaðastöðum, þar sem Davíð fæddist 22. desember 1941.

Hann tók við búinu 1960, þegar faðir hans dó, kvæntist Gladys Fisher tveimur árum síðar og þau keyptu jörðina af móður hans 1963. Eftir að hafa stundað hefðbundinn búskap í nokkur ár sneri Davíð sér að býflugnarækt, varð mjög atkvæðamikill á því sviði og stóð meðal annars að félagi bænda um ræktunina auk þess sem hann var virkur í öðrum félögum þeirra.

Davíð var í stjórn sveitarfélagsins Bifrastar 1981 til 1995 og þar af oddviti frá 1986. Hann var lengi formaður lútherska safnaðarins í Árborg. Hann var formaður árþúsundanefndarinnar – 125, Millennium 125, sem stóð að um 200 viðburðum frá strönd til strandar í Kanada árið 2000 til að minnast þess að þá voru 1.000 ár liðin frá því að fyrstu Íslendingarnir komu til landsins og 125 ár frá því að Íslendingar settust fyrst að við Winnipegvatn í Manitoba. Hann var jafnframt í stjórn Snorraverkefnis Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ).

Íslensk menning var Davíð hugleikin og hann lagði rækt við íslensk málefni, þýddi og samdi ljóð, og ljóðabók hans, The Fifth Dimension, kom út 2010.

Davíð fékk ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Þar á meðal var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og Manitoba-orðunni, tekinn inn í Landbúnaðarfrægðarhöll Manitoba auk þess sem þau Gladys voru útnefnd bændur ársins 2000 í Manitoba fyrir öflugt nýsköpunarstarf og ýmis samfélagsverkefni. Hann var heiðursfélagi ÞFÍ og sat í heiðursráði félagsins.

Davíð og Gladys, sem andaðist 2012, eignuðust tvær dætur, Katherine og Shelly, og sjö barnabörn. Seinni eiginkona hans er Judy Sólveig Richardson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert