„Við sjáum að það eru tengsl á milli lesblindu og kvíða,“ segir Ásdís Aðalbjörg Arnalds, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Ísland, í samtali við mbl.is. „En tengslin koma bara fram hjá þeim hópi sem greinist með lesblindu eftir tíu ára aldur.“
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að fimmti hver Íslendingur á aldrinum 18 til 24 ára glímir við lesblindu.
Til þessa hafði verið miðað við að tíundi hver Íslendingur væri lesblindur. Félag lesblindra á Íslandi kynnti í dag nýja rannsókn, sem framkvæmd var síðasta vestur, þar sem tengsl lesblindu og kvíða ungs fólks voru könnuð.
Þrátt fyrir að kvíði sé algengari meðal þess hóps sem greinist með lesblindu eftir tíu ára aldurs segir Ásdís að það sé ekki áberandi munur á milli þeirra sem greinast með lesblindu fyrir tíu ára aldur og þeirra sem greinast ekki með lesblindu yfir höfuð.
Ásdís segir að þeir sem greinast með lesblindu eftir tíu ára aldur séu líklegri til að vera hvorki í vinnu né námi. Um 13% þeirra sem greinast með lesblindu eftir tíu ára aldur eru hvorki í vinnu né námi en aðeins 6% þeirra sem greinast með lesblindu fyrir tíu ára aldur.
„Við sjáum að ef það er hægt að grípa þessi börn snemma og veita þeim þann stuðning þá vegnar þeim almennt betur þegar þau eru orðin 18-24 ára“ segir hún.
„Við erum til dæmis að skoða framtíðarvæntingar og hvort þau telji sig geta starfað við það sem þau vilja í framtíðinni,“ segir hún. „Þau sem eru að greinast með lesblindu seint eru ólíklegri til þess að segja það líklegt að þau munu starfa við það sem þau vilja. Þau sem eru eru neikvæðari gagnvart framtíðinni.“
Hún segir að fólk á aldrinum 18-24 ára sem greindist eftir tíu ára aldur stefni síður á að fara í háskólanám en eru líklegri til þess að stefna á framhaldsskólanám. 28% þeirra stefna á nám til stúdentsprófs og sama hlutfall í list- eða iðnnám.
Aftur á móti eru 11% þeirra sem ekki greinast með lesblindu sem stefna á nám til stúdentsprófs og 18% í lista og iðnnám.
Hún segir að aukin meðvitund um lesblindu sé líklega skýringin á því að fleiri greinist með lesblindu, frekar en að fleiri séu lesblindir en áður.