„Glæstur fulltrúi – en kannski einn sá síðasti“

Egill Helgason ritar minningarorð um David Gíslason, bónda og skáld …
Egill Helgason ritar minningarorð um David Gíslason, bónda og skáld á Svaðastöðum í Geysisbyggð. Ljósmynd/Aðsend

„Látinn er vestur í Manitoba David Gíslason, bóndi og skáld á Svaðastöðum í Geysisbyggð,“ skrifar Egill Helgason, þáttastjórnandi og bókmenntaspekúlant, á Facebook-síðu sína og minnist þar bóndans og skáldsins sem lést aðfaranótt föstudags, 81 árs að aldri.

Skrifar Egill að David hafi verið eitthvert mesta glæsimenni sem hann hafi kynnst, heill og sannur, héraðshöfðingi, verðlaunaður ræktunarmaður og skáldbóndi.

Ég stakk einhvern tíma upp á því að hann yrði kallaður til Íslands og gerður að forseta á Bessastöðum. Það var grín – en samt var í því viss alvara. David var fágætur maður. Hann orti kvæði sín úti á akri, á dráttarvél, en maður hefði getað séð hann fyrir sér lesa fréttir á stórri sjónvarpsstöð – svo var fas hans glæsilegt,“ skrifar Egill enn fremur.

Í þáttum sínum Vesturförum tók Egill David til umfjöllunar, skáldskap hans og þýðingar. Leggur hann myndskeið með Facebook-pistli sínum og kveður þar á ferð atriði sem hann sé stoltur af.

Kannski einn sá síðasti

„Hér er atriði sem ég er stoltur af, við gengum út á Sandy Bar þar sem var byggð Íslendinga sem fór hræðilega út úr bólusótt árin 1876-1877. Þar er leiði Betsyar Ramsey, en hún var eiginkona Johns Ramsey, frumbyggja sem var hjálparhella íslensku landnemanna og dó í sóttinni. David fór með samnefnt kvæði eftir Guttorm J. Guttormsson – Sandy Bar sem má telja höfuðkvæði Nýja Íslands. Þetta var mögnuð stund. Gæsahúð,“ skrifar Egill.

Segir hann frá rímnakveðskap bóndans vesturíslenska í heimsókninni og þýðingu hans á ljóði Stephans G. Stephanssonar, Þótt þú langförull legðir, sem David flutti gestum sínum.

„Hann var glæstur fulltrúi íslensku menningarinnar sem landnemarnir fluttu með sér og ræktuðu við Winnipegatn – en kannski einn sá síðasti.

Blessuð sé minning höfðingjans Davids Gíslasonar. Horfið endilega á myndbandið,“ lýkur Egill minningarorðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert