Einum sakborningi sleppt og annar játar sök

Landsréttur felldi gæsluvarðhald yfir stúlkunni úr gildi.
Landsréttur felldi gæsluvarðhald yfir stúlkunni úr gildi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sautján ára stúlku, sem var ein þeirra fjögurra sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna morðsins fyrir utan Fjarðarkaup í síðustu viku, hefur verið sleppt úr haldi. Stúlkunni var sleppt eftir að Landsréttur felldi gæsluvarðhald yfir henni úr gildi.

Rúv greinir frá þessu. Í umfjölluninni kemur fram að lögmaður stúlkunnar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hafi hvatt dómstóla til þess að láta hana lausa. Það hafi hann meðal annars gert á grundvelli þess að hún hafi tekið upp myndband af árásinni og ekki komið nærri fórnarlambinu eða verknaðinum.

Í samtali við Rúv sagði Vilhjálmur foreldra stúlkunnar hafa hvatt hana til þess að taka upp myndband þegar hún væri í ótryggum aðstæðum. Það hafi hún gert og myndbandið sé lykilgagn í rannsókninni.

Í kvöldfréttum Rúv kom fram að einn sakborninga hafi játað að hafa orðið manninum að bana.

Árásin átti sér stað á fimmtudaginn í síðustu viku fyrir framan verslunina Fjarðarkaup. Þar var 27 ára pólskur karlmaður stunginn til bana. Fjögur ungmenni, öll undir tvítugu voru handtekin vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka