Ekki nóg súrefni til að fljúga með farþega heim

Bráðaofnæmi kom upp hjá barni í flugi Play til Boston …
Bráðaofnæmi kom upp hjá barni í flugi Play til Boston sem varð til þess að ekki var hægt að fljúga með farþega heim til Keflavíkur vegna skorts á súrefnisbirgðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugi Play frá Boston í Bandaríkjunum til Íslands var aflýst með óvenju stuttum fyrirvara í gærdag en farþegum bárust fyrst fregnir af aflýsingunni eftir að þeir höfðu innritað sig og farangur sinn í flugið. Ástæðan reyndist vera neyðartilvik sem kom upp flugi vélarinnar til Boston.

Að sögn Nadine Guðrúnar Yaghi samskiptastjóra Play kom upp bráðaofnæmi hjá barni í vélinni og þurfti því að aðstoða barnið við öndun með súrefniskútum. Við lendingu kom hins vegar í ljós að ekki var hægt að fylla á súrefnisbirgðir vélarinnar á flugvellinum í Boston. 

Nadine segir áhöfn Play hafa staðið sig með eindæmum vel og að læknar um borð hafi aðstoðað flugþjóna. 

„Öryggi farþega haft að leiðarljósi“

Öryggi farþega er alltaf haft að leiðarljósi hjá Play en það hefði ekki verið fyllilega tryggt hefði einhver farþeganna til dæmis þurft á súrefni að halda á leiðinni frá Boston til Íslands,“ sagði Nadine Guðrún í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Vélinni var flogið til Keflavíkur án farþega en þeir voru færðir í annað flug.

Aðspurð hvaða lausnir Play hafi boðið upp á segir Nadine að farþegum hafi verið boðin gisting og hressing, en hver og einn farþegi hefði getað valið svokallaðan „valmöguleikapakka“ eftir því hvað þeim hentaði best. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert