Fimmti hver glímir við lesblindu

Börn sem greind eru eftir 10 ára aldur glími frekar …
Börn sem greind eru eftir 10 ára aldur glími frekar við kvíða en þeir sem fá greiningu undir 10 ára aldri og fá bjargir í framhaldinu. mbl.is/Hari

Allt að 20 prósent ungmenna á aldrinum 18-24 ára eru með lesblindu samkvæmt niðurstöðu þriggja ára rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Félag lesblindra á Íslandi. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis og gefa tölurnar til kynna að lesblinda sé mun algengari en áður hefur verið talið.

Börn sem greind eru eftir 10 ára aldur glími frekar við kvíða en þeir sem fá greiningu undir 10 ára aldri og fá bjargir í framhaldinu. Þá eru þeir sem eru lesblindir og fá greiningu seint líklegri til þess að vera hvorki á vinnumarkaði né í námi, en aðrir í aldurshópnum. Eins kemur fram að lesblindir eru síður líklegir til þess að klára háskólanám en þeir sem eru ekki lesblindir.

„Texti veldur lesblindum mjög miklum búsifjum og kvíða og það sést líka að þegar lesblindir einstaklingar fá snemma greiningu og bjargir til þess að stunda nám, þá vegnar þeim betur,“ segir Guðmundur Skúli Johnsen, formaður Félags lesblindra á Íslandi.

Hann bendir á að sökum þess hve lestrarkunnátta lesblindra er lítil aukist þekkingarbil hratt á milli lesblindra og annarra nemenda eftir því sem skólagöngunni vindur fram.

„Þekkingarbilið verður það mikið í hugum þessara barna að þeim finnst munurinn óyfirstíganlegur,“ segir Guðmundur. Það hafi kvíðavaldandi áhrif sem og áhrif á viðhorf til náms og framtíðarinnar. „Það á ekki að vera skilyrði fyrir því hvort þú fáir menntun, hvort þú hlustar á fróðleikinn eða lest hann.“

Rannsóknin verður kynnt í beinu streymi á mbl.is klukkan 11 í dag.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert