Illa brugðið í Borgartúni

„Ég var á göngu með foreldrum mínum og syni, sem var í kerru, þegar við sjáum hvar maður kemur akandi á ofsahraða á vespu og tvö lögregluvélhjól með bláum ljósum á eftir honum,“ segist Filip Milén frá, sænskum ferðamanni sem var á ferð um Borgartúnið í dag ásamt fjölskyldu sinni þegar þau urðu vitni að eftirför lögreglu og handtöku ökumanns vespunnar. Voru þau fjölskyldan þá stödd nálægt gatnamótum Borgartúns og Kringlumýrarbrautar.

„Svo komu þarna lögreglubílar skömmu síðar og áður en við vissum af var maðurinn á vespunni kominn í um tuttugu metra fjarlægð frá okkur og við vorum logandi hrædd um að hann æki á okkur,“ heldur Milén áfram og kveður foreldra sína hafa séð sitt óvænna og forðað sér í skjól bak við ljósastaur en hann sjálfur hafi hlaupið út á götu með drenginn í kerrunni.

Ökumaður vespunnar handtekinn skammt frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns/Sundlaugavegar í …
Ökumaður vespunnar handtekinn skammt frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns/Sundlaugavegar í dag. Skjáskot/Myndskeið Miléns

Féll af vespunni og var handtekinn

Lögreglu hafi svo tekist að stöðva för vespuekilsins sem við það hafi fallið af fararskjóta sínum og þá verið handtekinn án umsvifa enda töluvert lið lögreglu þá komið á vettvang.

„Þegar ég var kominn í örugga fjarlægð dró ég upp símann og tók myndskeið af handtökunni,“ segir sá sænski frá og kveður sjálfan sig, soninn og foreldrana hafa sloppið með skrekkinn og ekki orðið meint af en kona Miléns, sem einnig er með í Íslandsförinni, var ekki með á göngunni í dag.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mbl.is náðist ekki í neinn hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem veitt gat nánari upplýsingar um vespumanninn og hvað sá hefði unnið sér til óhelgi.

Filip Milén og sonurinn. Þeim fjölskyldunni varð ekki um sel …
Filip Milén og sonurinn. Þeim fjölskyldunni varð ekki um sel þegar vespan nálgaðist þau ískyggilega og hljóp Milén út á götu með son sinn í kerru. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert