Kæra úrskurð í hoppukastalamálinu

Héraðsdómari hefur hafnað beiðni verjenda í hoppukastalamálinu um endurmat á …
Héraðsdómari hefur hafnað beiðni verjenda í hoppukastalamálinu um endurmat á sönnunargögnum. Nú kæra þeir dóminn til Landsréttar. Morgunblaðið/Margrét Þóra

Verjendur þeirra sakborninga sem ákærðir voru í hoppukastalamálinu á Akureyri ætla að kæra úrskurð héraðsdómara til Landsréttar. Úrskurðurinn snýr að höfnun beiðni um endurmat á gögnum málsins. Þetta staðfestir Ein­ar Odd­ur Sig­urðsson, einn verj­enda í málinu.

Í byrjun mánaðar var greint frá því að verjendur þriggja af fimm sakborninga í málinu hafi farið fram á að ítarlegra mat á sönnunargögnum málsins yrði gert. Í matsbeiðninni var farið fram á nokkrar viðbótarspurningar sem verjendum sakborninga þótti nauðsynlegt að fá svör við.

Héraðsdómur á Norðurlandi-Eystra hafnaði beiðni um endurmat á sönnunargögnum málsins og verjendur þeirra þriggja sakborninga sem óskauðu eftir matinu kæra nú úrskurðinn til Landsréttar.

Um er að ræða atvik sem gerðist á Akureyri þann 1. júlí, 2021, þegar vind­hviða reif hluta gríðarstórs hoppukastala upp með þeim afleiðingum að eitt horn hans lyft­ist marga metra frá jörðu en fjöldi barna voru þá við leik í kastalanum og flytja þurfti sex ára barn á gjörgæslu í kjölfar slyssins.

Hoppukastalinn var í eigu Ævintýralands Perlunnar en rekst­ur hoppu­kastal­ans á Akur­eyri var í sam­starfi við Knattspyrnufélag Akureyrar.

Fimm ein­stak­ling­ar, þ.e. fram­kvæmda­stjóri Ævin­týra­lands Perlunn­ar, tveir starfs­menn hans og tveir for­svars­menn KA, voru ákærðir og telst málið varða við 219. grein al­mennra hegn­ing­ar­laga um líkamstjón vegna gáleysis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka