Verjendur þeirra sakborninga sem ákærðir voru í hoppukastalamálinu á Akureyri ætla að kæra úrskurð héraðsdómara til Landsréttar. Úrskurðurinn snýr að höfnun beiðni um endurmat á gögnum málsins. Þetta staðfestir Einar Oddur Sigurðsson, einn verjenda í málinu.
Í byrjun mánaðar var greint frá því að verjendur þriggja af fimm sakborninga í málinu hafi farið fram á að ítarlegra mat á sönnunargögnum málsins yrði gert. Í matsbeiðninni var farið fram á nokkrar viðbótarspurningar sem verjendum sakborninga þótti nauðsynlegt að fá svör við.
Héraðsdómur á Norðurlandi-Eystra hafnaði beiðni um endurmat á sönnunargögnum málsins og verjendur þeirra þriggja sakborninga sem óskauðu eftir matinu kæra nú úrskurðinn til Landsréttar.
Um er að ræða atvik sem gerðist á Akureyri þann 1. júlí, 2021, þegar vindhviða reif hluta gríðarstórs hoppukastala upp með þeim afleiðingum að eitt horn hans lyftist marga metra frá jörðu en fjöldi barna voru þá við leik í kastalanum og flytja þurfti sex ára barn á gjörgæslu í kjölfar slyssins.
Hoppukastalinn var í eigu Ævintýralands Perlunnar en rekstur hoppukastalans á Akureyri var í samstarfi við Knattspyrnufélag Akureyrar.
Fimm einstaklingar, þ.e. framkvæmdastjóri Ævintýralands Perlunnar, tveir starfsmenn hans og tveir forsvarsmenn KA, voru ákærðir og telst málið varða við 219. grein almennra hegningarlaga um líkamstjón vegna gáleysis.