Meiðyrðamáli Ingu Sæland vísað frá

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var ekki sátt við ummæli …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var ekki sátt við ummæli Þórunnar Sveinbjarnardóttur í þinginu 15. mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisnefnd Alþingis hefur lokið afgreiðslu á erindi Ingu Sæland, þingmanns og formanns Flokks fólksins, frá 18. mars um meint brot Þórunnar Sveinbjarnardóttur á siðareglum fyrir alþingismenn. Frá þessu greinir Alþingi í tilkynningu og enn fremur þeim málalokum að erindi Ingu hafi verið vísað frá.

Inga taldi Þórunni hafa haft uppi ærumeiðandi ummæli í hennar garð sem vörðuðu við siðareglur þingsins. Féllu téð ummæli 15. mars í umræðum um útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra og snerust um meinta útlendingaandúð Ingu. „Það eina sem er hér á ferðinni er ódýr og ógeðfelldur popúlismi sem byggir ekki á staðreyndum, sem byggir á útlendingaandúð,“ sagði Þórunn þar.

Athafnir þingforseta sæti ekki endurskoðun

„Við mat á ummælum þingmannsins, sem féllu á þingfundi 15. mars sl., var horft til þess að siðareglur þingmanna koma til fyllingar þeim skyldum sem þeir hafa samkvæmt stjórnarskrá, þingsköpum og úrskurðum forseta Alþingis um góða reglu. Í framkvæmd hefur verið miðað við að þingmenn njóti ríkrar verndar til þátttöku í opinni og frjálsri stjórnmálaumræðu í lýðræðisþjóðfélagi,“ segir í tilkynningu Alþingis.

Hafi verið litið til þess að tjáning þingmanna lyti fundarstjórn forseta Alþingis og athafnir forseta við stjórn þingfunda sæti ekki endurskoðun. „Það var niðurstaða málsins að skilyrði brysti til þess að forsætinefnd tæki erindið til athugunar, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 18. gr. siðareglna fyrir alþingismenn og 1. mgr. 6. gr. reglna um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert