Fyrirhuguð EES-forgangsregla er til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenskum rétti, og réttarframkvæmd heilt yfir, verði hún að lögum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ og doktorsnema við lagadeild Háskóla Íslands, og dr. Hafsteins Dans Kristjánssonar, lektors við lagadeild HÍ.
Greinin birtist í vefriti Úlfljóts um helgina og ber heitið „Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenskum rétti“. Hún er skrifuð í tilefni af frumvarpi utanríkisráðherra til breytinga á lögum um EES-samninginn sem ætlað er að uppfylla kröfur ESA um forgangsáhrif EES-reglna.
Af fyrirhugaðri forgangsreglu leiðir að sett lög sem innleiða EES-reglur ganga ætíð framar ósamrýmanlegum settum lögum og skiptir þá ekki máli hvort síðarnefndu lögin eru yngri eða sértækari, að því er segir í greininni. Mun það jafnframt eiga við um samspil laga, sem sett hafa verið fyrir gildistöku forgangsreglunnar, til framtíðar litið.
Löggjafinn mun þó geta mælt fyrir um frávik frá forgangsreglunni með síðari lögum eins og beinlínis er ráðgert í frumvarpsákvæðinu.
Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði lýsti Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ, áhyggjum af útvíkkun EES-samningsins og telur hann frumvarp ráðherra ganga of langt. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur aftur á móti sagt að hvorki sé vegið að stjórnarskrá né feli frumvarpið í sér framsal á fullveldi.