Rannsókn lögreglu í byrlunarmáli útvíkkuð

Byrlunarmálið svokallaða er til umfjöllunar í Dagmálaþætti dagsins. Páll Vilhjálmsson blaðamaður, bloggari og framhaldsskólakennari hefur í tugum færslna á bloggi sínu upplýst um framgang málsins. Hann fullyrðir að rannsókn lögreglu á málinu hafi tekið nokkrum breytingum og miðist nú ekki eingöngu við tímann eftir að síma Páls Steingrímssonar skipstjóra var stolið af gjörgæsludeild, þar sem hann lá milli heims og helju í nokkra sólahringa.

Páll segir að lögregla leiti nú upplýsinga um hvað gerðist fyrir stuld símans og afritun gagna úr honum. Hann segir staðfest að samskonar sími var keyptur af RÚV og það nokkru áður en síma skipstjórans var stolið og hann afritaður yfir á símtækið sem skráð er á RÚV.

Fimm blaðamenn eru sakborningar í rannsókn lögreglu í þessu máli. Páll hefur áður skrifað að von væri á ákærum fljótlega í málinu og hefur það ekki gengið eftir. Þá hefur Páll verið dæmdur nýlega fyrir meiðyrði í garð þeirra blaðamanna sem eru sakborningar. Hann segir þessa útvíkkun á rannsókn málsins skýringuna á því af hverju rannsókn hefur dregist svo í málinu.

Páll er með reynslu sem blaðamaður og er menntaður í blaðamennsku og fjölmiðlun frá skólum í Noregi og í Bandaríkjunum. Hann hefur sætt harðri ádeilu vegna skrifa sinna um þetta mál, en segist ætla að halda áfram að skrifa um það. Hann telur málið mikilvægt og veltir fyrir sér af hverju stóru fjölmiðlarnir meðhöndli þetta mál ekki eins og önnur mál af svipuðum toga.

Hér fylgir stutt brot úr þættinum en hann er aðgengilegur í heild sinni fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka