Tuttugu og tveir félagar ferðahópsins Fjallavina ásamt fjórum leiðsögumönnum frá IceGuide gengu upp á Hvannadalshnjúk aðfaranótt laugardags og náðu upp á topp klukkan 13.
Lagt var af stað um fjögurleytið að nóttu. Að sögn leiðsögumannsins Laurents Jegu var harðfenni alla leiðina og aðstæður ákjósanlegar.
„Þegar við komum upp í 1.200 metra hæð fórum við í gegnum skýjakraga upp að 1.700 metrum, en þá tók við sólskin og frábært útsýni til allra átta,“ segir Laurent, en gangan tók rúma 14 klukkutíma.