„Sneru hann niður í götuna án nokkurs fyrirvara“

„Rétt fyrir klukkan eitt í nótt [aðfararnótt sunnudags] sáum við ungan mann, sem virtist vera rétt um tvítugt, ráfandi einan um Lækjartorg. Þá brunar ómerktur sérsveitarbíll inn á torgið og stoppar fyrir utan héraðsdóm. Tveir sérsveitarmenn stigu út úr bílnum, fóru aftan að manninum og sneru hann niður í götuna án nokkurs fyrirvara.“

Þetta segir sjónarvottur, sem ásamt öðrum vegfarendum, varð vitni að því þegar sérsveitarmenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra fóru aftan að ungum manni í miðbænum og yfirbuguðu aðfaranótt sunnudags. Sjónarvotturinn tók hluta atburðarrásarinnar upp á símann sinn.

Myndskeiðið má sjá í spilaranum að ofan.

„Farið strangar í sakirnar en tilefni gaf til“

Sjónarvottinum var að eigin sögn mjög brugðið við þessa sjón, sem og öðrum viðstöddum. „Þarna var augljóslega farið strangar í sakirnar en tilefni gaf til,“ segir hann.

Að sögn sjónarvottsins hrópuðu sérsveitarmennirnir á manninn og spurðu hvort honum fyndist í lagi að haga sér eins og hann gerði í miðbænum. Sjónarvotturinn segir manninn auðsjáanlega hafi verið mjög ölvaðan og að hann hafi átt erfitt með jafnvægi.

„Þú gerðir það vilj­andi, það sáu það all­ir“

„Hann veitti enga mótspyrnu. Sérsveitarmennirnir héldu manninum niðri í götunni og fullyrtu háum og ógnandi rómi að maðurinn hefði gert eitthvað af sér. Annar sérsveitarmaðurinn sagði: „Þú gerðir það viljandi, það sáu það allir“. Maðurinn þrætti fyrir og gaf svo einhverjar útskýringar sem ég heyrði ekki enda héldu sérsveitarmennirnir honum pikkföstum við götuna með andlitið niður.

En svar sérsveitarmannanna var eins og þeir væru smá að trúa honum. Annar þeirra sagði svona spyrjandi einhvern veginn: „er það?“ eins og hann væri að spyrja manninn hvort atvikið sem hann var sakaður um hafi gerst eins og hann lýsti, eða þú skilur? Svo reistu þeir hann við og þá var eins og þeir hefðu ætlað að taka hann með sér en hann sagði bara: „Plís, plís“ og ég veit ekki alveg hvort þeir hafi tekið hann því við þurftum að fara annað.“

Ekki útkall sem kallaði á afskipti sérsveitar

Gunnar Hörður Garðarsson, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra, segir í skriflegu svari til mbl.is að sérsveitarmenn á vakt hafi haft afskipti af einstaklingi í miðbænum aðfaranótt sunnudags. 

Gunnar segir að ekki hafi verið um útkall að ræða sem kallaði sérstaklega á afskipti sérsveitarinnar en að það hafi þó verið aðdragandi að því að sérsveitarmenn á vakt í miðbænum hafi haft afskipti af manninum.

Gunnar segir að einstaklingnum hafi verið sleppt að loknu tiltali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert