Ökumaður var handtekinn á bifreið sinni vegna ölvunar síðdegis í dag og hafði þá nýverið sótt tvö börn sín í leikskóla í Garðabæ. Kemur þetta fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í umfjöllun um eril dagsins.
Segir þar enn fremur af þreyttum borgara sem tilkynnt var um að svæfi utandyra í hverfi 105 en annar hafði haft uppi ógnandi hegðun við starfsfólk ónefnds vinnustaðar í hverfi 103.
Þá var tilkynnt um innbrot í skóla í hverfi 101 og grunaður í því máli handtekinn. Þýfi komið til skila. Brotist var inn í gám í Hafnarfirði og verkfærum stolið þaðan auk þess sem tilkynnt var um þjófnað á fatnaði úr erfidrykkju, einnig þar í bænum.
Í hverfi 201 var ekið á gangandi vegfaranda en ekki er vitað um meiðsli hans.
Þá komu tvö þjófnaðarmál upp í verslunum, annarri í Árbæ en hinni í Breiðholti.