Vör við aukinn fíknivanda síðustu vikur

Hafrún Elísa Sigurðardóttir, teymisstýra skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins, segir starfsfólk Frú Ragnheiðar hafi orðið vart við aukinn fíkniefnavanda á undanförnum vikum. Þá segir hún starfsfólk einnig hafa heyrt af tíðari andlátum í kjölfar ofskömmtunar fíkniefna.

„Við höfum heyrt af meiri ofskömmtun af lyfjum. Og við höfum heyrt af því að fólk heldur að verið að setja varasöm íblöndunarefni í efni sem verið er að kaupa. Við höfum heyrt að það sé fentanyl, en við höfum ekki verið að mæla nein efni. En þetta er það sem við höfum verið að heyra,“ segir Hafrún. 

Sögur um fentanyl-blandaðar töflur

Á samfélagsmiðlum um helgina var varað við því að eitthvert magn fíkniefna væri í dreifingu þar sem ópíóðalyfinu fentanyl hefur verið blandað saman við önnur fíkniefni á borð við oxycontin, kókaín og LSD. Þá hefur það verið fullyrt að á annan tug einstaklinga hafi látist vegna ofskömmtunar á síðustu tveimur vikum. mbl.is hefur ekki tekist að sannreyna þær fullyrðingar.

Hafrún Elísa Sigurðardóttir.
Hafrún Elísa Sigurðardóttir.

„Við heyrum mjög reglulega af því að fólk er að deyja. Bæði fólk innan okkar skjólstæðingahóps, sem er fólk sem er heimilislaust og að notar fíkniefni í æð, en einnig fólk sem er ekki að leita til okkar. Það eru oft ungmenni og fólk sem er ekki á þeim stað að vera heimilislaust. Þar er fíknivandinn ekki orðinn jafn flókinn og þau eru meira að prófa sig áfram í fíkniefnanotkun. Þau hafa kannski ekki mikla þekkingu á því hvernig efnin eru, hvað þarf að varast, skammtastæðir og þekkja ekki inn á sitt þol. Þar er mikil áhætta,“ segir Hafrún. 

Fent­anyl er fimm­tíu sinn­um sterk­ara en oxycontin og getur verið hættulegt að blanda því saman við önnur efni, sérstaklega ef neytandi er ekki meðvitaður um að það hafi verið gert. Þannig hafa fíkniefnasalar í Bandaríkjunum á síðustu árum verið sakfelldir fyrir að hafa selt fíkiefni sem blandað hefur verið saman við fentanyl.

Ekki orðið vör við fentanyl

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi, hefur ekki heyrt af því að eitthvert magn fentanyl-blandaðra efna sé á markaði núna. „Ég veit ekki um það. Við höfum ekki orðið vör við fentanyl hér, eins og í Bandaríkjunum og strádrepur fólk þar. Við höfum ekki fengið það hingað svo ég viti til, allavega ekki í neinu magni,“ segir Valgerður. 

„Hins vegar vitum við að það eru dauðsföll af völdum ópíðóða,“ segir Valgerður en bætir við að oxycontin og contalgin séu algengustu efnin hér á landi. „Það er mikið af ungu fólki sem er að týna lífinu og er að nota ópíóða,“ segir hún. Valgerður hefur á síðustu árum ítrekað bent á þessa þróun sem orðið hefur, að fleiri séu nú háðir ópíóðum og yngra fólk en áður.

Um 300 manns á Íslandi eru nú á lyfjameðferð vegna ópíóðafíknar að sögn Valgerðar.

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. mbl.is/Árni Sæberg

Dreift 600 skömmtum á einu ári

mbl.is ræddi við Bubba Morthens tónlistarmann í gær, en hann sagði frá því að á einu ári hafi hann sungið yfir ellefu einstaklingum sem fallið hafa frá vegna vímuefnanotkunar og þar af sex einstaklingum sem höfðu ánetjast ópíóðum. Sagðist hann finna vel fyrir því hversu svakalega fjölgað hafi í hópi fólks sem ánetjast ópíóðum.

Frú Ragnheiður hefur auglýst um helgina hvernig nálgast má lyfið Naloxone í nefúðaformi. Hefur teymið dreift um 600 skömmtum undanfarið árið en lyfið er notað þegar þörf er á neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða sem getur valdið öndunarstoppi eða dauða. Með lyfinu er þannig hægt að koma í veg fyrir ofskömmtun af völdum ópíóðalyfja. 

„Það er stór hópur fólki sem notar vímuefni, þessi ungmenni, sem eru ekki að leita til okkar og eru þar af leiðandi ekki með gott aðgengi að Naloxone-nefúðanum. Það sem vantar er aukin fræðsla um vímuefni svo fólk geti gert sér grein fyrir því hvaða efni hafa hvaða áhrif. Frekar en að það sé verið að sussa niður vímuefnanotkun,“ segir Hafrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert