Yfirheyrslum yfir fjórum ungmennum, sem handteknir voru í tengslum við andlát karlmanns á þrítugsaldri í Hafnarfirði í síðustu viku, lauk í gærkvöldi. Einangrun hefur verið aflétt en sæta ungmennin gæsluvarðhaldi til 27. apríl.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Þar segir að rannsókn lögreglu miði vel áfram og að lögregla telji sig hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni sem leiddi til dauða mannsins.
„Vegna umfjöllunar og umræðu um andlátið vill lögreglan taka fram að hingað til hefur ekkert komið fram við rannsókn hennar sem bendir til þess að þjóðerni hins látna hafi haft með málið að gera,“ segir í tilkynningunni, en maðurinn var pólskur.