Ekki hægt að laga ofbeldismenningu á skömmum tíma

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum verið að undirbúa síðustu mánuði, í samvinnu við önnur ráðuneyti og með forystu forsætisráðuneytisins, að fjölþættri aðkomu að þessu vegna þess að eins og fram hefur komið í umræðu um þessi mál á meðal sérfræðinga þá er ekkert eitt sem þú getur stígið inn í og lagað þetta á skömmum tíma,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is um fjölg­un of­beld­is­glæpa meðal ung­menna. 

„Þetta er eitthvað sem hefur verið að aukast síðustu ár, og sérstaklega núna síðustu tvö árin. Það sem við höfum verið að undirbúa síðustu mánuði er sameiginleg aðkoma allra aðila að þessu máli. Við reiknum með því að á allra næstu misserum að þá getum við hrint slíku af stað.“

Ásmundur segir að dómsmála-, heilbrigðis-, félagsmálaráðuneytið og hans eigið ráðuneyti þurfi að takast á við vandann af miklum krafti. Þá komi barnavernd, félagsþjónustan, íþrótta- og tómstundastarf og skólarnir meðal annars einnig að verkefninu. 

„Við höfum verið að undirbúa stórt átak í þessa veruna og það þarf í rauninni að verða til lengri tíma heldur en bara einhverra vikna eða mánaða vegna þess að þetta er eins og ég segi eitthvað sem er að ágerast og verður ekki leyst á einni nóttu.“

Aðrar ástæður en illkvittni einstaklinga 

Í síðustu viku var greint frá því að fjögur ungmenni voru handtekin vegna manndráps í Hafnarfirði. Eitt ung­menn­anna var vistað á deild á Hólms­heiði sem vana­lega hýs­ir fjóra vegna þess að ekki var unnt að tryggja ein­angr­un á Stuðlum. 

„Það er auðvitað þannig að þegar um svona unga einstaklinga er að ræða stígur barnavernd inn. Það voru mikil samskipti á milli barnaverndaryfirvalda og löggæslu í þessu tilfelli. Við höfum áréttað mikilvægi þess að það er verið að vinna með börn og það er verið að vinna með einstaklinga sem ekki eru orðnir lögráða. Það er líka mjög mikilvægt í umræðunni að átta sig á því að vissulega þurfa einstaklingar að axla ábyrgð en yfirleitt þegar að svona brýst út að þá er eitthvað annað sem býr að baki.“

Ásmundur segir að aðrar ástæður liggja að baki en illkvittni einstaklinga. 

„Það eru oft á tíðum brotið bakland, það er oft á tíðum félagseinangrun og fleiri þættir sem valda því að þetta brýst út í ofbeldi eins og þessu. Það er þess vegna sem við segjum að til þess að vinda ofan af því – eðlilega þurfum við að taka á þessari stöðu eins og hún er – en til þess að vinda ofan af því til lengri tíma litið þá þarf að reyna átta sig á hverjar ræturnar eru og hvar við getum gripið þar inn.“

Ráðherrann ítrekar að breiða samstöðu þurfi til að vinna að því verkefni. 

„Við þurfum að ráðast í almennar forvarnaraðgerðir, við þurfum að skoða sérstaklega þessa félagslega veiku hópa – hvernig við getum eflt þá. Við erum búin að skapa allan grunn til þess að gera það. Með nýrri löggjöf um farsæld barna þá erum við að skapa samtal á milli ólíkra kerfa og við höfum allar forsendur til þess að geta náð árangri í þessu máli,“ segir Ásmundur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka