Tollverðir í Leifsstöð gripu fjóra einstaklinga á þriðjudag fyrir viku sem höfðu hug á því að flytja inn fíkniefni til landsins. Fer nærri að um metfjölda hafa verið að ræða á einum og sama deginum að sögn yfirlögregluþjóns. Óvenju mörg „burðardýr“ hafa verið tekin á Keflavíkurflugvelli undanfarnar tvær vikur.
Í heild er um tíu mál að ræða á tveggja vikna tímabili og segir Bjarney Sólveig Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, tollverði hafa fundið fyrir skyndilegri aukningu eftir nokkuð rólega tíð að undanförnu. „Við erum að upplifa áhlaup núna,“ segir Bjarney.
Spurð hvort um metfjölda sé að ræða á einum degi þá segist hún ekki getað fullyrt um það. „ En þetta er nálægt metinu,“ segir Bjarney.
Hún segir að í mörgum tilfellum sé um að ræða Spánverja sem gripnir voru með fíkniefni í þetta kastið. „Í fyrra voru þetta Nígeríumenn en nú eru þetta spænskumælandi,“ segir Bjarney.
„Við fengum fjögur mál inn síðastliðinn þriðjudag. Við höfum vísbendingar um að þrír af þessum hafi verið tengdir við fjórða manninn sem kom vikuna á undan,“ segir Bjarney.
Undanfarið hefur meðal annars verið hald lagt á amfetamín og kókaín. Það sem þykir þó óvenjulegast nú er aukinn innflutningur á kannabisefnum. Til þessa hefur verið talið að framleiðsla innanlands nægi á innanlandsmarkað en að sögn Bjarneyjar vekur þessi þróun spurningar um hvort það sé að breytast.
„Við höfum tekið heilu ferðatöskurnar af kannabisefnum. Í þremur málum voru rúm 8 kíló í hverri tösku,“ segir Bjarney.
Þann 18 apríl síðastliðinn lögðu tollverðir hald á 1,2 kíló af kókaíni. „Fyrir okkur er svona magn orðið frekar lítið. Einstaklingar reyna að koma með efni sem eru nærri kílói til að fá lágmarks refsingu ef þeir eru gripnir,“ segir Bjarney.
Spurð hvað valdi því að nú sé mestmegnis verið að taka Spánverja en í fyrra hafi Nígeríumenn helst verið teknir þá segir Bjarney erfitt að segja til um það. „Í síðustu viku voru allir Spánverjar sem við tókum. Menn eru miklu hraðari að bregðast við en við. Menn breyta um flugleiðir, breyta um aðferðafræði, breyta um þjóðerni miklu hraðar en við náum að rannsaka málin. Þetta er þaulskipulagt,“ segir Bjarney.