„,Ha? Ertu blindur? Nei ég er lesblindur. Hvað er það?“ Svona lýsir Karl Jóhann Haagensen fyrstu viðbrögðum fólks eftir að hann greindist með lesblindu 18 ára gamall árið 1998 þegar hann stundaði nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.
Karl Jóhann er einn af allt að 20% þjóðarinnar sem glímir við lesblindu samkvæmt niðurstöðum þriggja ára rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Segja má að greiningin hafi valdið stakkaskiptum í hans lífi og gerðu hún honum kleift að klára stúdentspróf og sækja sér háskólamenntun í byggingafræði í dönskum háskóla. Það var nokkuð sem hann hafði ekki órað fyrir að gæti gerst eingöngu nokkrum árum áður.
Í dag starfar Karl sem byggingafulltrúi á Akranesi auk þess að vera í hlutastarfi sem slökkviliðsmaður, menntaður smiður, stúdent og byggingafræðingur. „Það var íslenskukennari í FB sem áttaði sig á þessu. Ég fór í próf og það stóð heima. Allar perur voru rauðglóðandi og þetta var bullandi lesblinda,“ segir Karl Jóhann.
Hann segir að greiningin hafi bjargað námsferlinum. „Ég fékk aðgang að blindrabókasafninu og þá opnaðist fyrir mér nýr heimur. Ég gat t.a.m. hlustað á Íslendingasögurnar og tekið próf munnlega auk þess að fá lengri tíma í prófum. Það skipti öllu fyrir mig,“ segir Karl.
„Um leið og ég fékk staðfestingu á þessu þá létti á öllu. Kennarar sýndu manni betri skilning því það var aldrei skortur á metnaði frá mér,“ segir Karl Jóhann.
Hann segir að hann hafi frá fyrstu tíð verið með mikinn metnað sem hann þakkar m.a. íþróttaiðkun og hann hafði keppnisskapið í genunum. „Manni langaði svo mikið til að geta gert eins og hinir. Mamma sat yfir mér og hjálpaði mér mjög mikið. Þetta var aðallega íslenskan sem var mér erfið. Ég komst ágætlega frá stærðfræði en lesskilningur og stafsetning var mér erfið,“ segir Karl.
Hann segir að hann muni greinilega þeirri tilfinningu að kannski væri hann bara aðeins vitlausari en aðrir. „Í unglingadeildinni var alltaf draumur minn að komast í hraðferðabekkinn sem var í Fellaskóla. Þangað komst ég hins vegar aldrei þó ég væri mjög duglegur að læra. Ég fór meira að segja sjálfur til kennarans og bað um að fá að fara til sérkennara til að fá auka æfingu. Bara svona eins og íþróttamaður. Vildi fá aukaæfinguna,“ segir Karl og hlær við.
Hann hóf smíðanám í FB sem hann kláraði ári á undan áætlun. Undir lok námsins fékk hann greininguna og kláraði síðar stúdentspróf samhliða byggingariðnfræði úr Tækniskólanum. „Ég hafði alltaf verið að slefa með fimmur í gegnum hlutina en svo eftir greininguna var ég vel yfir meðallagi í einkunnum og þegar ég tók byggingarfræðina í Danmörku fékk ég 12 eða fullt hús í öllum prófum,“ segir Karl.
Hann segist ekki í nokkrum vafa um það að lesblindan hafi haft áhrif á það hvaða leið hann valdi í lífinu. Smíðin hafi verið auðvelda leiðin þó hún sé verðmætt nám. „Maður dreif það af að klára smíðina. Ekkert endilega til að fá pening og vinna heldur var námið einfaldlega ekki minn vinur. Mér leið illa í greinum eins og íslensku og kveið fyrir að mæta í þær kennslustundir,“ segir Karl.
Spurður hvort lesblindan hái honum í starfi hjá byggingafulltrúa þá segir Karl það fara eftir því hvernig á það er litið. „Stundum veit ég ekki hvernig á að skrifa einhver orð en þá reyni ég bara að umorða hlutina í kringum orðið eða spyr fólk í kringum mig,“ segir Karl.
Karl á fjögur börn og er giftur Báru Daðadóttur. Elstu tvö börnin eru 10 ára og 8 ára og eru byrjuð í skóla. „Ekki síst vegna minnar sögu höfum við lagt gríðarlega áherslu á það að láta börnin lesa. Manni verður stundum hugsað til genanna. Sá eldri er ættleiddur af mér en er barn Báru og við byrjuðum að láta hann lesa snemma og samkvæmt því sem kennararnir segja er hann framúrskarandi og les á hraða fullorðinna. Öðru gegnir með dóttur mína sem er næst elst. Hún fékk sama uppeldi hvað lesturinn varðar og hún er líkari mér. Oft hef ég á tilfinningunni að hún viti ekkert hvað hún er að lesa en sem betur fer er það nú ekki þannig þegar ég geng á hana og spyr hana út úr. Hún stendur sig mjög vel,“ segir Karl og hlær við.