Lausnin ekki „að lögleiða glæpi“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ópíóðafaraldur hér á landi og fjölg­un of­beld­is­glæpa meðal ung­menna var til umræðu á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, talaði meðal annars um skort stjórnvalda til að fylgja eftir skilaboðum um hvað telst ásættanlegt og hvað ekki. 

Hann sagði að mikilvægt væri að innleiða ákveðinn aga og skilning á því hvað megi og hvað ekki í ljósi fjölgun ofbeldisglæpa. Sigmundur sagði að það þyrfti að gefa lögreglu og skólastjórnendum tækifæri til að senda skýr skilaboð og fylgja þeim eftir. 

„Helstu skilaboð stjórnvalda inn í þetta ástand nú eru ítrekuð frumvörp um lögleiðingu fíkniefna. Það er ekki hægt að taka á vandanum með því að lögleiða glæpi,“ sagði Sigmundur. 

Vill að Naloxone verði selt í lausasölu

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, sagði að ógnarástand hafi skapast í samfélaginu og að sorglegt væri að vita að hægt væri að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll af völdum ofskömmtunar með lyfinu Naloxone. 

Þá hvatti Inga heilbrigðisráðherra til að leyfa lyfið í lausasölu um leið og hún vottaði fórnarlömbum ofskömmtunar og aðstandendum þeirra samúð sína. 

Með ólíkindum að tillögum um aukið aðgengi fjölgi 

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir orð Sigmundar og Ingu. 

Hann sagði það vera með ólíkindum að tillögum um aukið aðgengi og fíkniefnum væru til umræðu á Alþingi á meðan þeim sem leita sér aðstoðar vegna fíknivanda fjölgar. 

„En það koma engar tillögur um það hvernig við ætlum að mæta þeim áföllum sem að samfélagið og einstaklingarnir verða fyrir,“sagði Ásmundur og bætti við að mæta þyrfti þessari ógn með því að styðja við bakið á fyrirtækjum og stofnunum sem væru að reyna hjálpa fólki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert