Fjarskiptastofa hefur birt til samráðs drög að nýjum reglum um númer, númeraraðir og vistföng á sviði fjarskipta. Frá þessu er greint í tilkynningu á heimasíðu stofunnar og segir þar enn fremur að reglurnar nýju muni taka við af eldri reglum, númer 590/2015, um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga, ásamt síðari breytingum.
„Markmið hinna nýju reglna er það sama og eldri reglna, þ.e. að kveða á um skilvirka úthlutun númera fyrir mismunandi þjónustu,“ segir í tilkynningunni.
„Helstu nýmæli hinna nýju reglna taka til skilyrða fyrir úthlutun númera, sbr. 6. gr. reglnanna, þar sem nú er opnað á þann möguleika að aðrir en fjarskiptafyrirtæki geti í sérstökum tilfellum óskað eftir úthlutun númera til eigin afnota. Þá er í 11. gr. reglnanna mælt fyrir um að framsal númera sé heimilt að uppfylltum nánari skilyrðum,“ segir þar enn fremur.
Lætur stofan þess einnig getið að í nýju reglunum sé opnað á heimild til úthlutunar á númerum fyrir þjónustu sem teygir sig yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins og er þar vísað til viðmiðana og reglna frá BEREC, samtökum evrópskra fjarskiptaeftirlitsstofnana, varðandi skilyrði slíkrar úthlutunar.
„Að loknu samráði og úrvinnslu mögulegra athugasemda umsagnaraðila verða hinar nýju reglur settar með stoð í 3. mgr. 20. greinar laga um fjarskipti nr. 70/2022 og munu öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum,“ segir að lokum í tilkynningu Fjarskiptastofu en samráðsfrestur er út föstudaginn 19. maí.
Tilkynning Fjarskiptastofu