„Fundarstjórinn var sláandi dónalegur við þá sem var í forsvari fyrir þetta nýja fólk. Það átti helst ekki að leyfa því að kynna sig og þurfti á endanum að bera það undir fundarmenn með handauppréttingu,“ segir Lára Bryndís Eggertsdóttir, fyrrum organisti í Hjallakirkju í samtali við mbl.is.
Lára sótti nýverið aðalsafnaðarfund í Digraneskirkju til að fylgjast með kjöri á nýrri stjórn söfnuðarins. Hún segir fráfarandi stjórn samanstanda að miklu leyti af fylgjendum sr. Gunnars Sigurjónssonar og að fundarstjóri aðalsafnaðarfundarins sé einn fylgismanna Gunnars.
Sitjandi stjórnarmenn hlutu ekki endurkjör og hafa í kjölfarið kært atkvæðagreiðsluna. Lára segir aðför fráfarandi stjórnar skýrt dæmi um persónudýrkun á Gunnari og vantrú á þolendum.
Hún birti nýverið færslu á samfélagsmiðlum sem hún kallar „pistil sjöundu konunnar“, en þar setur hún meðal annars út á aðför fylgjenda sr. Gunnars, að öðrum sóknarmönnum í Digranes- og Hjallakirkju.
Sex konur í Digranessókn stigu fram á síðasta ári vegna meintrar kynferðislegrar áreitni og kynbundins ofbeldis af hálfu Gunnars. Í pistli sínum kveðst Lára hafa verið fyrst kvenna til að leggja fram kvörtun gegn honum, sökum eineltistilburða og rógburðar þegar hún starfaði sem organisti í Hjallakirkju.
Með því hafi hún í raun opnað dyrnar fyrir öðrum konum í sókninni sem höfðu upplifað áreiti, einelti eða ofbeldi af hálfu Gunnars en sumar konurnar sem stigu fram í kjölfarið höfðu einnig tekið þátt í aðför sr. Gunnars gegn Láru.
Hún segir það þó ekki breyta því að hún standi með og trúi þolendum sr. Gunnars, enda sé hann „miklum hæfileikum gæddur í að blinda fólk,“.
Lára hlaut nýverið niðurstöðu frá óháðri nefnd þjóðkirkjunnar, sem úrskurðaði henni í hag í málinu. Hún vill þó ekki rekja smáatriði málsins enda sé því lokið og ásetningur hennar ekki að „hefja einhvern leðjuslag“.
Hún furðar sig hins vegar á því að fylgjendur sr. Gunnars haldi aðför sinni gegn þolendum hans áfram og segir að persónudýrkunin á honum hafi verið orðin slík að endurkoma hans til starfa í kirkjunni, hafi verið ofar hagsmunum safnaðarins.
„Og þetta heldur áfram jafnvel þó að Gunnar steinþegi út horni.“
Lára segir boðskap stuðningsmanna sr. Gunnars einkennast af kvenfyrirlitningu og almennri þolendaskömmun og að fráfarandi formaður sóknarnefndar, Valgerður Snæland Jónsdóttir, hafi ráðist að persónu sinni og gert lítið úr þolendum sr. Gunnars.
Hún kveðst þjást af óþolandi réttlætiskennd og eigi erfitt með að láta sér standa á sama meðan aðrir þolendur sr. Gunnars séu ítrekað rakkaðir niður á opinberum vettvangi.
Hún hafi fljótlega getað fundið sér nýtt starf og þannig sloppið frá vinnustaðnum, en það hafi ekki endilega verið raunin fyrir aðra þolendur hans.
„Mér finnst ég ekki geta leyft mér þann munað að sitja í makindum við góða heilsu andlega og líkamlega, á góðum vinnustað þar sem mér líður virkilega vel, og almennt vel stödd faglega og félagslega, og ÞAGAÐ, meðan aðrir þolendur sr. Gunnars eru ítrekað rakkaðir niður á opinberum vettvangi.“ segir Lára í pistli sínum.