Skoða önnur úrræði til að vista ungmenni

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölgun ofbeldisglæpa meðal ungmenna og úrræðaleysi þegar kemur að vistun ungmenna undir sjálfræðisaldri var á meðal þess sem rætt var á ríkisstjórnarfundi í morgun. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir í samtali við mbl.is að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir vandanum og vinni að því að bregðast við honum. 

Fjögur ungmenni voru sett í gæsluvarðhald vegna árásar á mann fyrir utan Fjarðarkaup í síðustu viku. Maðurinn lést í kjölfar árásarinnar. Eitt ungmennanna var vistað á deild á Hólmsheiði sem vanalega hýsir fjóra vegna þess að ekki var unnt að tryggja ein­angr­un á Stuðlum. 

„Við erum að skoða þessi fangelsismál á fullu og erum að fara í uppbyggingarfasa núna á Litla-Hrauni,“ segir Jón og bætir við að í fjármálaáætlun séu heimildir til þess að fjölga opnum fangelsum. 

„Í tengslum við þetta er auðvitað skoðað úrræði fyrir þetta unga fólk.“

Væri til skoðunar að opna sérstaka deild á Litla-Hrauni fyrir ungmenni?

„Nei, ég sé nú ekki fyrir mér að þetta fari endilega inn á Litla-Hraun. Það getur komið úrræði þá frekar í tengslum við opnu fangelsin eða eitthvað slíkt, þar sem væri hægt að sinna þessum verkefnum,“ segir hann og bætir við að vinna að úrlausnum séu gerðar í samvinnu við barnamálayfirvöld.

Jón bendir á að um samstarf margra aðila sé að ræða, svo sem barnaverndar og annarra ráðuneyta.

Ný vopnalöggjöf í vinnslu

Nokkrir ráðherrar ræddu aukinn vopnaburð á samráðsfundi sínum í morgun. Jón nefnir að ný vopnalöggjöf sé að koma fram og að vopnaburður ungmenna verði skoðaður í tengslum við hana. 

„Við erum líka að skoða aukið samstarf á milli löggæslunnar og skólayfirvalda. Núna vorum við að ýta af stað átaki innan lögreglunnar sem að snýr að þessari samfélagslöggæslu sem við köllum svo. Það eru einmitt lögreglumennirnir sem fara í skólana og vinna með skólunum.

Síðan þarf þetta að ná inn á heimilin. Þannig að þessi mál eru í heilmikilli skoðun og gerjun og við vorum að fara yfir þetta hér síðast í morgun á vettvangi ríkisstjórnarinnar og á vettvangi þeirra ráðherra sem þetta heyrir undir. Þar er mikið og gott samstarf í gangi og við gerum okkur grein fyrir vandanum og ætlum að reyna bregðast við því,“ segir Jón að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert