„Það er enn mikið af fyrirspurnum að detta inn fyrir sumarið en við þurfum því miður bara að vísa fólki frá, staðan hjá okkur er þannig að sumarið er meira og minna uppselt,“ segir Sara Ósk Rúnarsdóttir, móttökustjóri á Fosshóteli Jökulsárlóni.
Sömu sögu má segja af flestum gististöðum á Suðurlandi en blaðamaður mbl.is tók stöðuna á nokkrum þeirra.
Ef marka má nýjustu ferðaspá má gera ráð fyrir allt að 2,2 milljónum ferðamanna til landsins á árinu.
Sigurlaug Gissurardóttir, eigandi gistiheimilisins Brunnhóls sem staðsett er undir Vatnajökli, segir sumarið uppselt hjá þeim alveg fram í september. Hún segir útséð með að fólk fái gistingu á Brunnhóli í sumar en mikið sé um að fólk hringi eða sendi tölvupóst til að kanna stöðuna. Sigurlaug segir um 98% gestanna erlenda, flestir komi frá Bandaríkjunum og Norður-Evrópu. Þá þurfi óhjákvæmilega að auka við mannskapinn yfir sumartímann. Aðspurð hvers vegna Suðurlandið hafi þetta aðdráttarafl svarar Sigurlaug því til að það sé vegna jöklanna.
„Það vill enginn koma til landsins og missa af jöklunum.“
Arna Kristín Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hótel Víkur í Mýrdal, segir mörg þjóðerni heimsækja hótelið en hlutfall Íslendinga sem gisti hjá þeim sé ekki hátt miðað við stöðuna í dag. Þá segir hún Bandaríkjamenn og Þjóðverja efsta á blaði en á hæla þeirra fylgi Ítalir, Bretar og Frakkar. Yfirleitt stoppi gestir í eina eða tvær nætur en örfáir dvelji í lengri tíma. Arna segir algengt að fólk skrái sig á biðlista upp á von og óvon.
„Ef einhverjar afbókanir verða þá vinnum við með biðlista, annars fyllist þetta nánast af sjálfu sér yfir sumartímann, það er mikil eftirspurn. Ef við horfum á sumarið að þá yrði slembilukka að detta inn á afbókun.“
Arna segir ástæðuna fyrir vinsældum þessa landshluta einkum þá að að margt sé að sjá og upplifa á Suðurlandinu. Þá nefnir hún staði eins og Reynisfjöru, Reynisdranga, Dyrhólaey og Hjörleifshöfða en hún segir einnig að fallegar göngu- og jöklaferðir laði að ferðamennina og þá séu fuglaskoðun og hestaferðir vinsælar.
Sumarið leggst vel í þær Söru, Sigurlaugu og Örnu sem segja allar að nú þegar sé brjálað að gera og tíðin fari vel af stað. Hásumartíminn sé fullbókaður í ár líkt og í fyrra en allar finna þær fyrir auknum straumi ferðamanna til landsins enda sé sumarið sífellt að lengjast þar sem septembermánuður sé vinsæll líka hjá ferðamönnum.