„Við þurfum sem samfélag að skera upp herör gegn þessari þróun,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is um ópíóíðafaraldur sem virðist geisa hérlendis.
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens greindi frá því um helgina að á einu ári hefði hann sungið yfir ellefu einstaklingum sem fallið hafa frá vegna fíknisjúkdóms og þar af sex einstaklingum sem höfðu ánetjast ópíóíðum.
„Það er greinilegt að það er eitthvað í gangi sem að við þurfum að mæta. Við erum auðvitað með ýmiss konar úrræði, bæði félagsleg- og heilbrigðistengd úrræði,“ segir Willum og nefnir í því samhengi viðhaldsmeðferðir og skaðaminnkandi úrræði.
„Við þurfum augljóslega að auka þessi úrræði, gera meira og gera betur. Um leið að komast að því hvað það er í samfélaginu okkar sem er að orsaka þetta.“
Willum nefnir að ofbeldishegðun hafi einnig breyst og undirheimarnir séu að harðna.
Spurður hvort það vanti stefnumótun er kemur að skaðaminnkandi úrræðum og afglæpavæðingu segir Willum að ýmislegt jákvætt hafi gerst í þeim efnum.
„Talandi um afglæpavæðinguna þá höfum við verið með hóp starfandi sem hefur verið að ná utan um þetta með öllum aðilum sem koma að þessum málum.“
Hann segir að samtalið hafi þróast út í þá átt að gera meira í skaðaminnkandi úrræðum „og hlúa betur að þessum hópi sem er á misjöfnum stað“. Því þurfi fjölbreytt úrræði.
Willum segir augljóst að neyslurýmin þjóni sínu hlutverki vel, bæði sem forvörn við sýkingum og styðji við einstaklingana sem nýti sér rýmin.
„Síðan erum við að fara taka til skoðunar þetta með reynslu annarra þjóða af því sem að heitir morfínklíník. Við erum auðvitað með og kaupum þjónustu SÁÁ í viðhaldsmeðferð,“ segir ráðherra.
„Þannig að það er mjög fjölbreytt og margt sem við þurfum að gera og þvert á ráðuneyti,“ segir Willum og bætir við að lokum að fara þurfi í verkefnið af krafti.