Kuðungurinn, viðurkenning umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytisins var í dag veittur fyrirtækjunum Jáverk og Gefn fyrir framúrskarandi starf í umhverfismálum á síðasta ári.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt fulltrúum Sjálandsskóla, veittu fyrirtækjunum verðlaunin.
„Það er ánægjulegt að upplifa þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum, sem eru ein brýnustu mál samtímans,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningunni.
„Þessi vitundarvakning endurspeglast meðal annars í mikilli grósku í umhverfismálum sem nú er innan margra fyrirtækja og stofnana landsins og er ein af ástæðum þess Kuðungurinn er nú veittur í tveimur flokkum, í flokki stærri og minni fyrirtækja og stofna.“
Valnefnd Varðliða umhverfisins valdi nemendur Sjálandsskóla sem Varðliða árið 2023 en nemendur á miðstigi og í 9. bekk unnu á þemadögum verkefni um umhverfisvernd, endurvinnslu og endurnýtingu.
Markmið þemadaganna var að gera nemendur meðvitaða um eigin þátttöku í neyslusamfélagi og velta upp því einstaklingar geta gert til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.
Nemendurnir gerðu til dæmis úttekt á orkunotkun rafmagnstækja og matarsóun á eigin heimili. Nemendur á miðstigi endurnýttu einnig efnivið sem annars hefði endað í ruslinu á skapandi hátt og hvöttu þannig samfélagið til þess að hugsa margnota frekar en einnota. Þetta gerðu þau meðal annars með sköpun tónverka sem leikin voru á heimatilbúin hljóðfæri sem búin voru til úr plastúrgangi.
Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu á Járnverki sem handhafar Kuðungsins kemur fram að fyrirtækið hafi verið fyrsta umhverfisvottaða byggingarfyrirtækið á Íslandi en fyrirtækið varð í fyrra Svansleyfishafi.
Í tilkynningunni kemur fram að um 35% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu megi rekja til byggingariðnaðarins og dómnefnd segir framlag Jáverks til umhverfismála þess vegna vera mikilvægt.
Samkvæmt rökstuðningi dómnefndar fær Gefn viðurkenninguna fyrir að hafa náð góðum árangri með QVIK tækninni sinni svokallaðri. Tæknin snýr að nýtingu úrgangs og aukaafurða frá fituvinnslu til þess að búa til umhverfisvænar efnavörur.
Það var því mat dómnefndar að nýsköpun á borð við þessa geti stuðlað að miklum framförum í umhverfismálum þar sem hún feli í sér að hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti og öðrum óumhverfisvænum og skaðlegum efnum í vörum fyrir umhverfisvænni og heilsuvænlegri kost. Í fyrra hlaut BYKO kuðunginn.