Víðtækar götulokanir vegna leiðtogafundar

Kort af götulokunum vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins þann 16. og 17. …
Kort af götulokunum vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins þann 16. og 17. maí næstkomandi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Búast má við talsverðum umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Hörpu dagana 16. og 17. maí. Víðtækar götulokanir verða á meðan fundinum stendur en búist er við um 900 erlendum gestum hingað til lands vegna hans.

Þá er enn óljóst hversu margir erlendir fjölmiðlamenn mæta til landsins til þess að fjalla um fundinn en talið er að þeir gætu orðið á bilinu 300-500 talsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram á vef Stjórnarráðsins um fundinn.

Lokað fyrir umferð ökutækja

Ætla má að fundurinn hafi nokkur áhrif á daglegt líf íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Af öryggisástæðum verða götur í kringum Hörpu lokaðar fyrir umferð ökutækja á meðan á fundinum stendur en hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli. Einnig má gera ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda á þessum dögum og verða áhrifin hvað mest síðdegis á þriðjudeginum og miðvikudeginum.

Þá segir jafnframt inni á vef Stjórnarráðsins að upplýsingasíða vegna götulokana sé væntanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert