20 látist það sem af er ári

Tuttugu manns sem komið hafa á sjúkrahúsið Vog létust á …
Tuttugu manns sem komið hafa á sjúkrahúsið Vog létust á fyrsta ársfjórðungi ársins 2023.

Tuttugu einstaklingar undir fimmtugu sem komið hafa á sjúkrahúsið Vog hafa látist það sem af er ári. Þar af eru 15 undir fertugu, 6 undir þrítugu. Sé sú tala uppreiknuð fyrir árið má gera ráð fyrir að 80 manns látist á þessu ári. 

Aldrei hafa fleiri verið í lyfjameðferð hjá SÁÁ við ópíóðafíkn en Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreiða meðferð fyrir tæplega þriðjung þeirra sem sækja meðferðina á göngudeild Vogs.

Þetta kemur fram í gögnum frá SÁÁ. 

Árið 2014 voru 117 sem fengu meðferð við ópíóðafíkn en árið 2022 voru það 347. Á sama tíma hefur samningur SÍ ekki breyst og er aðeins niðurgreidd meðferð fyrir 90 sjúklinga á hverju ári. SÁÁ hefur mætt þessum kostnaði en Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, hefur kallað eftir breytingum. 

Mikið hefur verið fjallað um ópíóðafíkn í þessari viku en sögur hafa gengið á samfélagsmiðlum að 15 einstaklingar hafi látist af völdum ofskömmtunar á síðustu tveimur vikum. Þær tölur hafa ekki fengist staðfestar en Embætti landlæknis heldur utan um dánarmeinaskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert