Brasilíska alríkislögreglan hefur fengið ákærufrest sinn, vegna rannsóknar á máli Sverris Þórs Gunnarssonar, framlengdan. Sverrir var handtekinn í Rio de Janeiro í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar þann 12. apríl síðastliðinn og hefur neitað að svara spurningum við yfirheyrslur.
„Fresturinn var framlengdur í gær. [...] Hér í Brasilíu getur gæsluvarðhald staðið til réttarhalda það er bara rannsóknin sem hefur ákveðinn frest,“ segir Thiago Giavarotti, yfirlögregluþjónn hjá brasilísku alríkislögreglunni í samtali við mbl.is.
Hámarkstímaramminn sem að lögreglan í Brasilíu hafi til þess að gefa út ákæru séu þrjátíu dagar. Hefðbundinn frestur sé fimmtán dagar en getur verið framlengdur sé þess þörf.
Fyrr í mánuðinum var talið líklegt að Sverrir yrði ákærður innan þess hefðbundna fimmtán daga frests sem gefinn er og að sterk sönnunargögn væru til staðar í málinu. Endi handtaka Sverris með ákæru þykir líklegt að það verði fyrir fíkniefnasmygl og peningaþvætti.
Greint hefur verið frá því að framsal Sverris til annarra landa sé ekki möguleiki. Hann eigi brasilíska konu og börn sem fædd séu þar í landi, í slíkum tilfellum sé framsal ekki heimilað.
Í dag eru fjórtán dagar liðnir frá því að Sverrir var handtekinn í tengslum við Match Point-aðgerðirnar í Brasilíu. Meira en tvö hundruð lögregluþjónar tóku þátt í aðgerðunum, meðal annars frá Íslandi og Ítalíu.
Í aðgerðunum lagði lögregla hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kannabisefnum og 57 fasteignir auk ökutækja og skipa ásamt því að loka fyrir bankareikninga 43 einstaklinga.
Lögreglan telur verðmæti eignanna sem lagt var hald á geta numið um 150 milljóna brasilísks ríal eða um 4,2 milljörðum íslenskra króna.