Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem losunarframreikningar Umhverfisstofnunar eru áréttaðir.
Umhverfisstofnun birti landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda í síðustu viku. Skýrslan er gefin út árlega til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að skýrslan sem var nú skilað innihaldi losunarbókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti á Íslandi á árunum 1990-2021. Þá hefur stofnunin samhliða birt framreikninga um áætlaða losun og bindingu til ársins 2050.
„Í fréttum undanfarna daga hefur því verið slegið upp að langt sé í land að Ísland nái að uppfylla sín markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Í því samhengi er rétt að benda á nokkur atriði.
Framreikningar Umhverfisstofnunar byggjast á aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum frá árinu 2020. Sú aðgerðaáætlun miðar við skuldbindingar innan markmiðs um 40% heildarsamdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ríkja ESB, Noregs og Íslands. Þar voru skuldbindingar á beina ábyrgð Íslands 29%, auk þess sem þáverandi ríkisstjórn setti sér sjálfstætt markmið um 40% samdrátt,“ segir í tilkynningunni og því miðast aðgerðaáætlunin við gömul markmið sem hafa nú verið hert.
Í tilkynningunni er einnig minnst á að framreikningar Umhverfisstofnunar séu að mörgu leyti varfærnir þar sem samkvæmt alþjóðlegri aðferðafræði framreikninga er ekki lagt mat á aðgerðir nema þær séu að fullu komnar til framkvæmda, auk þess sem þær þurfa að vera að fullu fjármagnaðar út það tímabil sem fyrirsjáanlegt er að þær verði í framkvæmd.
„Af þeim 50 aðgerðum sem miðuðust við eldri markmið eru 49 komnar í framkvæmd eða vinnslu og eru sumar þeirra ekki metnar í framreikningum Umhverfisstofnunar.“
Þá segir að vinna standi nú yfir í ráðuneytinu við uppfærslu aðgerðaráætlunar til samræmis við hert markmið. Stefnt er að útgáfu hennar síðar á þessu ári.